Stór dagur á morgun :)

Það er stór dagur á morgun hjá okkur hjónum á Miðbrautinni en það eru 25 ár síðan við giftum okkur. Skrítið að það eru svona mörg ár síðan ég gekk inn kirkjugólfið með pabba í litlu kirkjunni í Árbæjarsafninu og var nærri því dottin um faldinn á kjólnum. En það eru s.s. liðin 25 ár og margt gerst á þesum árum. Eins og svo margir vita gerði Al Qaeda og Osama bin Laden þennan dag eftirminnilegan fyrir 6 árum, þannig að það er svolítið skrítið að halda upp á daginn. Við höfum eiginlega aldrei haldið virkilega upp á hann með einhverju stórkostlegu en við erum að hugsa um að gera það á morgun, fara kannski út að borða eða eitthvað með börnum og tengdasyni. Svo er nú vika í eiginlega brúðkaupsferð, þó hún sé kannski 25 árum og viku of sein en við ákváðum að láta á þetta reyna áður en við færum í svona ferð eða þannig. Það verður bara skemmtilegt hjá okkur turtildúfunum á Florida og Bahamas 🙂
Helgin leið fljótt eins og vanalega, tengdó var hjá okkur laugardag og sunnudag. Við fórum í heimsókn upp á Minna Mosfell til Vals og Guðrúnar í gær og hittum þar fleiri ættingja. Guðrún litaði augabrúnirnar á tengdó og við fengum kaffi og með því, mikið skrafað og hlegið. Við skutluðum svo tengdó á Grundina í bakaleiðinni og elduðum kvöldmat sem að ekki var neitt sérstaklega góður. Við keyptum eitthvert grillkjöt í Nóatúni, það hefur reynst vel en þetta var eitthvað skrítið. Ég veit ekki hvort það var kjötið eða einhver magakveisa en ég er búin að liggja með magaverki í mest alla síðustu nótt og mest allan daginn, ekki gott 🙁 Líðanin er þó skárri núna undir kvöldið svo að ég vona að ég komist í vinnuna á morgun og geti haldið upp á brúðkaupsafmælið með stæl. Er ekki 25 ára brúðkaupsafmæli silfurbrúðkaup, ég held það en þarf að tékka á því. En nú er ég að hugsa um að halla mér og lesa smávegis, er búin með „Þú ert það sem þu hugsar“ mjög góð bók fyrir þá sem eru áhugamenn um þetta málefni. Nú ætla ég hins vegar að klára að lesa seinni bókina hennar Yrsu „Sér grefur gröf“. Þar til næst, góða nótt dúllurnar mínar 😉

Blautur laugardagur

Enn hvað það getur rignt 🙁 maður á bara ekki orð yfir það. Var að horfa með öðru auganu á landsleikinn, eða horfði á fyrri hálfleik og hlustaði eiginlega á seinni hálfleik, var að vafra aðeins á netinu. Góður leikur af því sem ég sá og heyrði, þrælfúlt að vinna hann ekki!!! Það gengur bara betur næst eða í næstu viku á móti „Norður Írum“. Jæja nóg með það, í dag þrifum við híbýlinn áður en við sóttum tengamömmu. Eftir að hafa sótt hana á Grundina fórum við í Liti og föndur, þar sem ég fjárfesti í fatalit og fleiru. Ég ætla að útbúa mér bol með siglingunum okkar en þær verða þrjár þegar að yfir líkur eða kannski fleiri, maður veit aldrei 😉 Eftir að hafa keypt litinn fórum við á Hraunbrautina til mömmu og pabba, fengum kaffi og með því og skiluðum af okkur jólaóróanum sem Þorvaldur keypti fyrir mömmu. Við stoppuðum aðeins, pabbi gaf okkur lifrarkæfu sem hann hafði búið til og við tókum líka restina af kjötinu okkar úr frystinum. Við héldum heim á leið með viðkomu í Nóatúni til að kaupa ýmislegt í matargerð kvöldsins en Þorvaldur gerði gúllas fyrir sig og mömmu sína en við Kristján fengum okkur bara pizzu. Þorvaldur keyrði mömmu sína svo heim rétt fyrir leikinn. Nú eru allir að verða búnir að ná sér eftir leikinn og Þorvaldur situr og skýtur með fjarstýringunni á sjónvarpið, Kristján er eitthvað að dedúa við tölvuna sína og ég sit hér og hamra á lyklaborðið eins og óð manneskja. Er núna bara að hugsa um að lesa smá eða bara góna á sjónvarpið, ekki er hundi út sigandi annars væri gott að ganga smávegis í ferska loftinu…. not 🙂

Orðið fullmannað á Miðbrautinni

Eins og segir í kvæðinu „Ég er hýr og ég er glöð, Þorvaldur er komin heim“ oj en væmið. Þorvaldur er sem sagt kominn heim frá Noregi, við mæðgur fórum undir kvöld í Keflavík að sækja hann. Gaman að sjá hvað flugvöllurinn okkar er orðinn alþjóðlegur, þar sem við stóðum og biðum þá stóðu fullt af fararstjórum og einhverjum með miða (eins og í útlöndum) en þeir voru að sækja farþega. Þeir stóðu í hálfgerðum hnapp og töluðu saman en þegar hurðin út úr tollinum opnaðist fóru hendur á loft. Ferlega gaman að fylgjast með þessu, allir rosalega skilyrtir eitthvað, hei þarna opnast hurðin upp með hendur. Við hefðum átt að standa í hrúgunni með spjald sem stóð á Þorvaldur eða Elkó, hefði verið ógeðslegur húmor en gott að vera vitur eftir á 🙂 Í dag var líka stóri læknadagurinn hjá mér eða þannig. Ég fór í morgun í blóðprufu, til að athuga með járnbúskapinn sem hefur verið í lágmarki síðustu misseri og svo fór ég líka í hjartalínurit. Hef verið að finna fyrir truflun á hjartslætti, spurning hvort konan sé bara stressuð haha… kemst að því í fríinu mínu sem er framundan. Seinni partinn fór ég svo í röntgen með puttann góða sem krambúleraðist í hjólaslysinu í júní. Hann hefur verið eitthvað skrítinn síðan og er ekki alveg að virka eins og hann á að gera. Ég fæ kannski bara þá niðurstöðu að ég sé lélegur sjúklingur, þ.e. að ekkert sé að mér, ég vona það a.m.k. En það var nú gott að það sé orðið fullmannað á Miðbrautinni, maður notar þetta orðatiltæki „fullmannað“ úr vinnunni, því það er nú ekki alltaf fullmannað þar en það er nú önnur saga 😉 Á morgun er svo kominn föstudagur og enn ein helgin, mér finnst í rauninni alltaf vera helgar sem er í sjálfu sér bara gott er það ekki… Um helgina ætlar svo tengdó að koma í heimsókn til okkar, svo við eldum nú örugglega eitthvað gott og borðum öll saman. En núna ætla ég að fara að hætta þessu í bili og þar til næst… ciao