Gráu hárin

Ég var að koma frá henni Siddý í Permu en hún hefur það hlutverk að laga heysátuna á höfðinu á mér og er ég extra flott þessa stundina. Í dag voru strípurnar eiginlega klipptar burtu og viti menn þá komu gráu hárin í ljós, svei mér ef þeim fjölgar ekki jafnt og þétt. En svona er þetta nú maður eldist með hverjum deginum en þó er maður alltaf bara 29 eins og mamma gamla. Í gær fór ég svo í nudd til Stínu, hún tók vel á mér en það var langt síðan við hittumst síðast. Það var eins og hefði keyrt yfir mig trukkur í gærkveldi en dagurinn í dag er allur annar. Nú er kominn fimmtudagur og enn að koma helgi, Þorvaldur skreppur aðeins til Noregs á sunnudaginn og kemur aftur eftir nákvæmlega viku. Hann ætlar að fara að fræðast um heimilistæki og eitthvað annað skemmtilegt, syngja Elkjöp sönginn og svona. Við hin á heimilinu látum okkur leiðast á meðan… not, það verður bara fjör hjá okkur, vinna, skóli o.s.frv. Ég hef haldið áfram jafnt og þétt að lesa bókina hans Guðjóns og bregst hún ekki 🙂 mæli með henni. Enn nú ætla ég hins vegar að leggjast fyrir framan tv-ið og horfa á alla vega tvo uppáhalds þætti eða jafnvel þrjá. Svo næ ég nokkrum síðum í bókinni fyrir háttinn.

Mín bara dugleg

Ég ákvað bara að vera dugleg núna og færa inn færslu. Hann Þorvaldur minn benti mér á að það væri nú kannski komið svona ákveðið ferli í færslunum, fyrst var einn dagur á milli og svo tveir eða eitthvað álíka og svo fjölgaði dögunum á milli færslna. En það sem ég þarf alltaf að afsanna hlutina, færi ég inn færslu núna. Ég útskýrði þetta nú bara með því að segja að það gerðist nú ekki alltaf eitthvað sérstaklega markvert í mínu lífi hvern dag en það er nú bara rakið bull. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast en kannski maður skrifi bara ekki um hvað sem er. En þannig er það nú í dag að ég fór í tvö stórskemmtileg fimmtugs afmæli á þremur dögum, annað hjá Önnu Leu í Keflavíkinni og svo til hennar Jóhönnu á Reynimelnum. Í báðum afmælunum var mikið sungið og skrafað en það er einmitt það sem mér finnst svo skemmtilegt, þ.e. að syngja og skrafa. Svo hef ég bara verið dugleg í hreyfingunni síðustu daga, fór og synti í Neslauginni, það er svo gott að synda. Á morgun ætla ég svo að hitta hana Stínu nuddara, það er svo langt síðan ég hef farið til hennar í nudd svo ég hlakka mikið til eða þannig. Svo ætlar hún Siddý að sæna svolítið hárlubbann á fimmtudaginn, bara dekur þessa dagana 😉 Svona er þetta nú stundum allt safnast á sömu vikuna. Ég fékk senda bók í póstinum í dag, sem er nú ekki frásögu færandi en ég pantaði nýju bókina eftir Guðjón Bergmann sem heitir „Þú ert það sem þú hugsar“. Ég held mikið upp á Guðjón eftir að hafa verið hjá honum í jóga í nokkur ár. Les af og til bloggið hans og svo fór ég á fyrirlestur með henni Steinu vinkonu minni í fyrra um fyrirgefninguna, mæli með honum. Ég hlakka mikið til að byrja að lesa bókina, læt vita hvernig mér finnst hún. Er að hugsa mu að hætta núna og fara að lesa 🙂

Í helgarlok

Jæja nú er komið að helgarlokum og okkur hefur tekist að klára það sem við ætluðum að klára um helgina. Æðislega skemmtilegt afmæli hjá Önnu Leu í Keflavíkinni, fullt af fólki og mikið skrafað og sungið. Næsta fimmtugsafmæli á morgun hjá henni Jóhönnu á Reynimelnum og vonandi sjá fleiri úr hópnum sér fært að mæta 😉 Enn hvað með það, við tókum til í geymslunni í dag og hentum alveg helling af drasli, ég hef sagt það áður og segi það enn – mikið óskaplega tekst manni að safna miklu af drasli. Þeir sem hafa séð okkar yndislegu geymslu vita að það er ekki hægt að safna miklu í hana og þó. Hún liggur undir tröppurnar að efri hæðunum og er hvergi hægt að rétta úr sér nema fyrir utan hana, svona skotgrafarhernaður. Enn kannski þess vegna er nú auðvelt að safna og troða miklu inn í hana, sem aftur á móti gerir það að verkum að erfitt er að nálgast hlutina sem maður ætlar að nota í það og það skiptið. Í geymslunni eru m.a. 400 og eitthvað hljómplötur sem eru núna aðgengilegar ásamt fleiru verðmæti. Það er gott að hafa auðvelt aðgengi að plötunum, því hann Þorvaldur pantaði sér plötuspilara frá Ameríkunni um daginn. Plötuspilarinn er nefnilega þannig úr garði gerður að hægt er að tengja hann við tölvu, svo að allar gömlu plöturnar verða bráðum á tölvutæku formi. Nýtt hobbí fyrir minn elskulega eiginmann, alltaf gott að hafa nóg að gera eða þannig. Ég nýt nú góðs af þessu öllu saman, fæ kannski bara fleiri lög í ipodinn minn 🙂 Í dag var þáttur hjá Opruh um fólk sem býr mjög smátt, ein kona bjó í 25 fm og par með lítið barn í 26 fm og var bara hamingjusamt í þessum þrengslum. Ég hugsaði með mér þegar ég horfði á þennan þátt, að ef ég byggi í svona litlu rými þá myndi ég pottþétt ekki safna drasli og væri kannski bara enn hamingjusamari eða hvað. Ég er mjög glöð og hamingjusöm með mína 100 fm og erum við ekkert á leiðinni að fara héðan, þó svo að það væri gott að vera með aðgengilegri geymslu 😉 Enn „heima er best“ og er ég mjög sammála því orðatiltæki, enda eyði ég miklum tíma hér heima og finnst hvergi betra að vera. Nóg með það nú hefst ný vinnuvika með nýjum tækifærum, styttist í ferðina okkar júhúu (var ég ekki að enda við að segja að heima væri best, gamla orðin tvísaga). Verð vonandi mjög dugleg að færa inn færslur en þangað til næst, verið í stuði með guði 🙂