Stór dagur á morgun :)

Það er stór dagur á morgun hjá okkur hjónum á Miðbrautinni en það eru 25 ár síðan við giftum okkur. Skrítið að það eru svona mörg ár síðan ég gekk inn kirkjugólfið með pabba í litlu kirkjunni í Árbæjarsafninu og var nærri því dottin um faldinn á kjólnum. En það eru s.s. liðin 25 ár og margt gerst á þesum árum. Eins og svo margir vita gerði Al Qaeda og Osama bin Laden þennan dag eftirminnilegan fyrir 6 árum, þannig að það er svolítið skrítið að halda upp á daginn. Við höfum eiginlega aldrei haldið virkilega upp á hann með einhverju stórkostlegu en við erum að hugsa um að gera það á morgun, fara kannski út að borða eða eitthvað með börnum og tengdasyni. Svo er nú vika í eiginlega brúðkaupsferð, þó hún sé kannski 25 árum og viku of sein en við ákváðum að láta á þetta reyna áður en við færum í svona ferð eða þannig. Það verður bara skemmtilegt hjá okkur turtildúfunum á Florida og Bahamas 🙂
Helgin leið fljótt eins og vanalega, tengdó var hjá okkur laugardag og sunnudag. Við fórum í heimsókn upp á Minna Mosfell til Vals og Guðrúnar í gær og hittum þar fleiri ættingja. Guðrún litaði augabrúnirnar á tengdó og við fengum kaffi og með því, mikið skrafað og hlegið. Við skutluðum svo tengdó á Grundina í bakaleiðinni og elduðum kvöldmat sem að ekki var neitt sérstaklega góður. Við keyptum eitthvert grillkjöt í Nóatúni, það hefur reynst vel en þetta var eitthvað skrítið. Ég veit ekki hvort það var kjötið eða einhver magakveisa en ég er búin að liggja með magaverki í mest alla síðustu nótt og mest allan daginn, ekki gott 🙁 Líðanin er þó skárri núna undir kvöldið svo að ég vona að ég komist í vinnuna á morgun og geti haldið upp á brúðkaupsafmælið með stæl. Er ekki 25 ára brúðkaupsafmæli silfurbrúðkaup, ég held það en þarf að tékka á því. En nú er ég að hugsa um að halla mér og lesa smávegis, er búin með „Þú ert það sem þu hugsar“ mjög góð bók fyrir þá sem eru áhugamenn um þetta málefni. Nú ætla ég hins vegar að klára að lesa seinni bókina hennar Yrsu „Sér grefur gröf“. Þar til næst, góða nótt dúllurnar mínar 😉

One thought on “Stór dagur á morgun :)

Comments are closed.