Sama gamla rútínan

Jæja nú er maður bara komin í sömu gömlu rútínuna aftur og er snöggur af því. Ég hef reyndar verið að berjast við einhverja sjóriðu, heimurinn tekur sig til allt í einu og snýst í kringum mig og þess á milli finnst mér eins og ég sé að stíga ölduna. Getur verið frekar óþægilegt en vonandi rjátlast nú þetta af mér fljótlega. Ég fór nánast strax eftir lendingu í Keflavík í vinnuna og mikið var gaman að hitta börnin og samstarfsemnnina. Dagurinn í dag var svolítið erfiður, konan eitthvað dösuð og með sjóriðuna. Svo skrapp ég heim eftir gleraugunum mínum í morgun, því þeim gleymdi ég algjörlega í morgunsárið, og á leiðinni til baka í leikskólann fór bíllinn minn að ganga eitthvað sérkennilega. Ég hringdi í Þorvald sem aftur hringdi í Bjössa frænda, bifvélavirkjann í fjölskyldunni, sem kom og kíkti á gripinn og ætlar að skoða hann fyrir mig á mánudaginn. Vonandi er þetta nú ekki eitthvað meiriháttar, því að konan er orðin allt of góður vön og á erfitt með að vera án bleiku drossíunnar. Í kvöld er menningarferð 2. deildar leikskólakennarafélagsins, það er alltaf mjög skemmtilegur viðburður. Í kvöld ætlum við að sækja Álftanesið heim og borða svo í Kópavogi og skemmta okkur eitthvað fram eftir kvöldi. Fyrir þá sem ekki vita er 2. deild fyrir þá leikskólakennara sem vinna í Kraganum, þ.e. Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Álftannes og Hafnarfjörður. Enn núna þarf ég að fara að taka mig til því að við eigum að mæta út í leikskóla eftir tæpan klukkutíma. Þar til næst eigið þið góða helgi 😉