Fimmtudagur ó fimmtudagur

Og það er bara kominn fimmtudagur, vikan er ekkert smá fljót að líða, sem er í sjálfu sér bara ágætt 😉 Búið að vera bara gaman í vinnunni en þannig á það auðvitað að vera. Ég hef ekki verið neitt sérlega dugleg að skrifa færslur þessa viku en það hefur allt verið við það sama svo það kemur ekki að sök. Ræktarkortið hefur alveg haft hvíld í æfingatöskunni en það stendur nú allt til bóta að fara renna því í gegnum lesarann í Þrekhúsinu. Ég fór þó og hljóp hring með Kristjáni á mánudaginn, eða hann hljóp smá spöl með mér og gafst svo upp á mömmu því hún fer eitthvað hægar yfir 🙁 En svona er nú þetta með þetta gamla lið, það hægist á því með aldrinum (hef nú ekki verið sérstaklega spretthörð um dagana, svo að það er nú ekki hægt að ætlast til mikils). Þorvaldur er kominn í helgarfrí, ætlunin er að taka til í geymslunni um helgina, vonandi tekst okkur það. Við erum að fara í afmæli til Önnu Leu í Keflavíkinni á laugardaginn, það verður bara gaman að hitta þá skólafélaga Þorvaldar úr ÍKÍ sem sjá sér fært að mæta. Segi nánar frá því síðar 😉

Eftir helgina

Nú er enn ein helgin liðin en ég hef nú verið ótrúlega dugleg þessa helgi. Ég þreif allt hátt og lágt í dag og henti drasli, það er alveg ótrúlegt hversu miklu manni tekst að safna svona dags daglega. Í gær fórum við Þorvaldur í afmæli til Kela frænda og hittum við þar helling af fjölskyldumeðlimum, það er alltaf jafn gaman að hitta fjölskylduna. Mamma og pabbi komu svo í heimsókn í gærkveldi og bakaði Þorvaldur vöfflur handa liðinu og ég þeytti rjóma og svo voru jarðaber og bláber með herlegheitunum. Maður var s.s. saddur og sæll þegar maður fór í rúmið í gærkvöldi, sæll því við horfðum á Mr. Bean en hvað það er mikil vitleysa. Edda eyddi helginni heima í föðurhúsum, því að Gummi var að traktorast eitthvað á Sauðarkróki. Hún var að lesa fyrir próf en fór heim í gær til að taka til heima hjá sér og Gumma. Ég fór svo með henni heim í dag, til að taka út verkið, þegar við vorum í les og tiltektarpásu, bara skrambi gott hjá henni enda vel upp alin haha… Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni eða þannig. Enn nú er komið að kveldi og vinnan kallar enn og aftur í fyrramálið. Það er tæpur mánuður í ferðina frægu, ég verð að fara að hætta að telja svona niður 😉 Ég er að hugsa um að leggjast undir feld og lesa bara smá. Þangað til næst… 🙂

Og enn er kominn miðvikudagur

Nú er komið að því að segja frá einhverju nýju og spennandi sem er að gerast í mínu lífi. Vinna og vinna og aftur vinna, nei ekki alveg. Í kvöld hitti ég tvær skólasystur mínar úr Háskólanum á Akureyri, þær Siggu og Röggu og borðuðum við saman. Við fórum á Vegamót og fengum alveg guðdómelgan mat. Rosalega er mikið að gera á svona veitingastöðum, samt er bara miðvikudagur í dag. Ég geri mér kannski ekki grein fyrir því að það sé bara alltaf mikið að gera, sama hvaða dagur er. En hvað með það, mikið var gaman að hitta þær stöllur, við borðuðum og hlógum og broðuðum meira og hlógum meira. Eftir góðan málsverð og enn betri hlátur gengum við sælar og mettar yfir í Mál og menningu til að kíkja á bækur, aðallega þó föndurbækur en eitthvað okkur fannst nú úrvalið í minna lagi, svo við enduðum á að kíkja í blöð í staðinn. Við gengum svo aðeins niður Laugaveginn og niður við Bergstaðastræti skildu leiðir. Vonandi verður nú styttra í næsta stefnumót við þær stöllur, því það hafði liðið ansi langur tími frá því að við hittumst síðast. Takk fyrir skemmtunina stelpur 🙂 Jæja nú er vikan u.þ.b. hálfnuð og tíminn fljótur að líða, það er bara 1 mánuður og 3 dagar í síðbúnu brúðkaupsferðina okkar hjóna, enn skemmtilegt. Í dag á hann Þorkell Valur afmæli og er hann 4 ára, tilhamingju Keli okkar. Enn nú er ég bara að hugsa um að hætta í bili „ciao tutti“ 😉