Mánudagur til mæðu, nei langt í frá ;)

Jæja ég er þá sest við lyklaborðið og byrjuð að segja frá mínu viðburðaríka lífi. Mér finnst eins og ég sé föst í sama farinu, eins og ég sé alltaf að segja frá því sama eða þannig (t.d. nota ég mjög oft eða þannig). En hvað sem því líður þá ætla ég að pikka eitthvað inn á vefdagbókina. Nú er eins og ég sé að fara yfir um í þunglyndinu, oh… lífið mitt er svo tilbreytingasnautt 🙁 en það er nú öðru nær. Ég bara vorkenni þeim sem eru alltaf að lesa um það sama sem ég fæst við að hverjum degi. Lífið mitt er svo langt frá því að vera tilbreytingasnautt, halló ég vinn með börnum, altaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast. Svo er ég að vinna með svo skemmtilegu fólki, áfram Sólbrekka!!! 🙂 Ég er líka næstum búin að skrá mig á „Desperat housewifes“ magadansnámskeið, ég er að reyna að fá einhverja með mér og það gengur bara ágætlega. Við fjórmenningarnir sem að vorum í magadansi hjá Kramhúsinu í vetur förum að öllum líkindum saman, á eftir að tala við eina. Magadans er alveg frábær hreyfing og í raun eini staðurinn þar sem maður má vera með hangandi maga haha… 😉 mæli með því. Það verður bara gaman að fá að sleppa fram að sér beislinu.
Heyrðu ég verð nú að segja frá einu sem gerðist í gær, það er nú kannski léttvægt en ég varð hneyksluð. Þannig var að ég fór í bakaríið eftir einhverju í fjölskyldumorgunverðinn, þar sem okkur mæðginunum finnst svo góðir snúðar þá ætlaði ég að fjárfesta í svoleiðis. Það er nú ekki frásögu færandi en við viljum lítið bakaða snúða og bað ég um það en var sagt að það væru bara til tveir snúðar sem voru í borðinu. Halló… kl. 10:30 á sunnudegi en það gat nú alveg verið. Ég hef oft beðið um lítið bakaða á þessum tíma og afgreiðslustúlkan farið á bakvið og náð í þá en ekki þessi, nei það voru bara til tveir!!! Ok mér sýndist þeir ekki mikið brenndir svo að ég ákvað að slá til. En… þegar ég búin að borga og var að setja í pokann minn, var hin afgreiðslustúlkan að afgreiða ungt par og strákurinn spyr hvort snúðarnir með súkkulaðinu væru búnir en afgreiðslustúlkan (ekki mín) segir nei ég held ekki, ég þarf bara að athuga á bak við. Hún kemur að vörmu spori og segir að hún eigi snúða, hvort hann vilji marga. Ég varð svo hissa á þessu, komst að því að það hefði verið logið að mér svona bara upp í opið trýnið… Mín að hugsa um að rífast eitthvað og biðja um að það verði gáð hvort að það sé til minna bakaðir… en nei, fór bara út í bíl og heim, alveg hneyksluð á því að afgreiðslustúlkan í Björnsbakaríi nennti ekki alveg að stjana við kúnnann og laug bara upp í opið geðið á honum. 🙁 Ekki gott að mínu mati, maður hefði nú fengið að heyra það í Hagkaup í gamla daga ef maður hefði verið gripinn glóðvolgur við að ljúga að kúnnanum. En svona er þetta nú, maður er kannski bara of heiðarlegur og ætlast kannski til þess að aðrir séu það líka. Svona er þetta nú á mánudegi, við hér á Miðbrautinni að bíða eftir spennandi sendingu frá Ameríku sem vonandi skilar sér í dag. Þangað til næst: auf wiedersehen 🙂

Laugardagur til lukku nema hvað

Þó að ég hafi ekki unnið í neinum happadrættum í dag, þá held ég bara að laugardagur sé til lukku. Kannski ég ætti að drífa mig og kaup lottóseðil…not. En dagurinn í dag hefur bara verið góður, bæði veðurlega af því að mér finnst ég vera eins og meiriháttar veðurfráskýrandi og eins bara almennt. Við vöknuðum um kl. 10, lásum blöðin og snæddum eitthvað, ja svona eins og maður gerir á hverjum morgni. Við gerðumst áskrifendur á sýn 2, þetta heimili getur nú ekki verið þekkt fyrir að hafa ekki enska boltann. Það var nú ekki alveg hlaupið af því að gerast áskrifandi, því að það voru held ég bara allir aðrir líka að gerast áskrifendur á síðustu stundu. Það hefur verið mikil umræða um þetta áskriftamál á heimilinu, okkur finnst við hafa verið plötuð eins og svo mörgum öðrum íslendingum í þessu máli. En enski boltinn er enski boltinn og ef maður hefur brennandi áhuga verður maður bara að bíta í það súra epli að borga. 🙁
Eftir þetta var svo farið í Krónuna og verslað, nú fer maður bara í fínu Krónubúðina á Granda er ekkert að púkka upp á Bónus. Við sóttum svo gömlu á Grundina og ætlar hún að vera hjá okkur í dag. Við ætlum að elda buff og nýjar kartöflur namminamm… 🙂 Edda er að vinna, pabbi og Kristján eru úti að slá, ég sit hér og pikka á lyklaborðið, Þorvaldur er að baka sína frægu skúffuköku, tengdó situr og fylgist með og Gummi er á Akureyri að traktorast eitthvað. Svona er nú Seltjarnarnes í dag 😉

Uppfærsla síðustu daga

Jæja þá er ég að reyna standa mig í blogginu en það hefur eitthvað farið lítið fyrir því síðustu daga. Það virðist eitthvað vera minni tími til að skrifa núna eftir að fríið er búið eða kannski er þetta bara aumingjaskapur í manni. En hvað sem því líður, þá er hafin ný önn í leikskólanum með deildarskiptum og nýjum börnum og foreldrum. Þetta er alltaf frekar annasamur tími en mjög skemmtilegur. Þannig hafa nú dagarnir liðið ekkert sprikl hvorki hjólað, synt né labbað…hvað er eiginlega í gangi en þetta fer nú vonandi allt að komast í samt horf. 🙂
Í gær fylgdum við hjónin henni Bergþóru, gömlum vinnufélaga okkar til grafar en hún dó 1. ágúst. Við hittum fleiri gamla vinnufélaga í jarðarförinni, Petrínu og Tótu og svo Jóhannes manninn hennar Petrínu . Merkilegt hvað það þarf alltaf einhverjar athafnir til að maður hittir fólk svona, maður er hættur að droppa inn í kaffi. Seinni partinn í gær fórum við mæðgur svo til hennar Jóhönnu í uppfærslu, þ.e. litun, plokkun og Edda lét laga konunglegu neglurnar. Ég ætla hins vegar aðeins að bíða með að fá mér svona fínar neglur aftur, ég sé mig ekki alveg vera svona fín um neglurnar í vinnunni með krílunum mínum. 😉
Í gærkvöldi fórum við svo nokkrar af Sólbrekku í garðaskoðun eða öllu heldur garðpartý hjá henni Dísu á Ægisíðunni með viðkomu hjá Ingu en hún býr við Kaplaskjólsveginn. Þetta var ótrúlega vel heppnað og skemmtilegt kvöld, garðarnir þeirra skörtuðu sínu fegursta í góðu veðri. Við gengum frá Sólbrekku til Ingu og stoppuðum þar í smá stund og þáðum veitingar. Það var aðeins byrjað að rigna en samt heitt þegar við héldum göngunni áfram eftir göngustígum, stoppuðum hjá Sonju og kíktum á rósina hennar og héldum sem leið lá á Ægisíðuna. Himinninn var ægifagur rauðbleikur en það var smá súld. Addi og Tómas tóku á móti okkur og Tómas var í KR regnslá með svarta og hvíta regnhlíf á höfðinu… Áfram KR 🙂 Við settumst fyrir fram arininn eftir að hafa skoðað garðinn og fengum okkur gellugos o.fl. og nörtuðum í snakk og ídýfur. Þegar farið var að kólna bauð Dísa okkur inn og við spjölluðum, drukkum og dönsuðum til hálf tvö. Þá sótti Þorvaldur okkur Eddu en Soffía, Solla og Setta gengu heim. Fyrr um kvöldið höfðu Anna Stefáns, Anna Jóna, Sigrún, Inga, Lovísa og Sonja yfirgefið okkur. Hér á eftir koma myndir sem teknar voru í þessari ótrúlega skemmtilegu garðaskoðun og vonandi eiga eftir að verða fleiri svona góðar stundir í vetur hjá Sólbrekkugellunum. Takk fyrir Dísa að bjóða okkur heim og Inga fyrir að leyfa okkur að kíkja á herlegheitin hjá sér 😉

Lagt af stað frá Sólbrekku Hjá Ingu

Staldrað við á leiðinni Gestgjafinn okkar

Tómas KR-ringur bestur

Sólsetur á Ægisíðunni Blóminn hennar Dísu

Lovísa og Sigrún Setta, Sonja og Inga

Inga og Setta Sonja og Solla

Soffía og Lovísa Alltaf gaman hjá þessum!