Las Vegas, here we come

Við lögðum af stað til Las Vegas upp úr klukkan 10 og gekk ferðin mjög vel fyrir utan smá tafir fyrstu kílómetrana á meðan við vorum að komast út úr LA. Við tékkuðum okkur svo inn á glænýtt La Quinta hótel rétt upp úr klukkan16 og hvíldum okkur aðeins og gengum frá þyrlufluginu áður en við fórum niður á Strip til að skoða ljósadýrðina. Á miðjum rúntinum var svo hringt frá Þyrlu liðinu og okkur tjáð að við yrðum að breyta umsömdum tíma, 9:20 í 6:20. Þetta gerði það að verkum að við vorum mætt í morgunmat á laugardeginum þegar opnað var kl 6 og lögð af stað í ógleymanlegt þyrluflug 20 mínútum síðar. Þegar við komum til baka upp úr klukkan 10 þá drifum við okkur út að Hoover stíflunni og vorum komin til baka til Vegas um kl 13 til að skoða Strippið í björtu. Við kíktum svo aðeins í búðir og fengum okkur að borða áður en við lognuðumst út af eftir langan og viðburðarríkan dag.

Los Angeles

Leiðin frá Ragged Point til LA var stórkostleg, útsýnið fagurt og veðrið eftir því. Við vorum komin á hótelið okkar í Hollywood um kl. 18, rétt áður en myrkrið skall á. Herbergið var ágætt engin íburður, frekar gamalt en hreint og rosalega vel staðsett. Eftir að hafa fengið morgunmat á hótelinu, sem var með þeim betri, gengum við niður Hollywood Bouleward í átt að þeim stað þar sem skoðunarferðirnar hefja sína ferðir. Við gengum meiri hluta leiðarinnar eftir Walk of Fame og kíktum á stjörnur stjarnanna á gangstéttinni á leiðinni. Við komum að Kodak og Chinese Theater og hoppuðum upp í fyrri rútuferð dagsins, sem var um Hollywood og Beverly Hills. Ekki sáum við nú marga fræga á leiðinni en túrinn var góður og margt að sjá. Þegar þessari ferð lauk hoppuðum við upp í rútu sem flutti okkur í miðbæ LA þar sem einnig var margt að sjá. Gengum við svo aftur heim eftir langan dag. Morguninn eftir tókum við svo neðanjarðarlestina að Kodak Theater og tókum rútuna til að ná annarri rútu sem flutti okkur að Santa Monica Pier þar sem við eyddum næstu þremur tímum. Fyrst var smá þoka og lítið útsýni en eftir að hafa borðað á Bubba Gumb létti til og sólin skein á okkur þar sem eftir var dags og auðvitað tókst okkur að brenna smávegis. Við enduðum svo daginn með að fara í bíó í Chinese Theater þar sem helstu myndir Hollywood eru frumsýndar, við sáum myndina Unknown með Liam Neeson ágætis spennumynd. Við tókum svo lestina aftur heim seint og um síðir.