Seattle

Dagarnir hérna í Seattle hafa liðið hratt, við höfum sinnt smá viðskiptum og skoðað okkur um. Í dag fórum við í skoðanaferð um miðborg Seattle. Við byrjuðum á að fara niður að Seattle Center en þar er Nálin staðsett. Við lögðum bílnum í bílahús í nágrenninu og héldum gangandi að Nálinni frægu, við ætluðum að far í svona rútuferð þar sem hægt var að hoppa í og úr en komumst að því að þeir eru ekki starfsræktir á veturna. Við ákváðum bara að fara upp í Nálina og fá okkur hádegisverð, og eyddum við klukkutíma í að snúast í hring hátt uppi og virða fyrir okkur útsýnið. Á meðan þessu stóð tókum við eftir lítilli flugvél sem flaug um með bónorðsborða hangandi aftan úr sér. Þegar hún flaug framhjá hófust fagnaðarlæti á næsta borði en þar var einmitt stödd stúlkan sem bónorðið átti að fá ásamt sínum heittelskaða og fjölskyldum. Þetta var mikið upplifun og vakti athygli nærstaddra. Eftir að hafa notið þessa fórum við með Monorail lestinni yfir í Westlake Center sem er í verslunarhverfi miðborgarinnar. Við gengum síðan sem leið lá að Pike Street markaðnum en þar er staðsett fiskihorn þar sem bókin um „Fiskinn“ gerist. Eftir að hafa virt fyrir okkur allt það sem í boði var  á markaðinum héldum við áfram gangandi að næsta hverfi eða Pioneer Square, þar sem við fórum í Underground Tour en hann er að hluta til neðanjarðar. Seattle er að hluta til byggð á mörgum hæðum og fórum við um þar sem áður voru hús, bankar og ýmis konar rekstur. Mjög góð ferð með frábærum fararstjóra. Eftir þetta tókum við strætó til baka að lestinni og fórum og sinntum smá viðskiptum og enduðum þetta með því að borða í Cheesecake Factory 😉 Á morgun ætlum við svo að sigla með ferjunni til Bremerton en stefnan er að heimsækja gamla siglingarfélaga sem búa í Port Orchard.