Aftur til San Francisco

Við leyfðum okkur að kúra aðeins lengur í morgun og lögðum ekki af stað fyrr en upp úr 9. Við vorum svo heppin að leið okkar skaraðist ekki við 100.000 áhorfendur að hinum árlega Nascar kappakstri  sem fram fer í Vegas. Við  ókum sem leið lá í dauða dalinn, Death Valley, þar sem getur að líta ótrúlega fegurð í landslagi eins og t.d. við Zabriskie Point og einnig ókum við þarna 100 fetum undir sjávarmáli. Við héldum svo áfram upp í fjöllin og fórum hæst í tæp 8.200 fet í Deadman og Conway skörðum. Þarna er  allt á kafi í snjó þó svo að göturnar séu auðar en allir þvervegir yfir Yosemite þjóðgarðinn eru lokaðir utan sveitaveg nr. 88 sem við ökum á morgun. Við erum núna á ágætu Best Western hóteli í smábæ sem heitir Topaz og er með gott netsamband.  Við erum komin aftur inn í Nevada og það var ekki að sökum að spyrja  þó svo að bærinn telji ekki nema svona 30 hús þá skartar hann 2 stórum hótelum og að sjálfsögðu spilavíti. Við eigum svo ekki eftir nema 4 og hálfan tíma í akstri til San Francisco svo við ættum að eiga léttari aksturs dag á morgun en við ókum rúmar 400 mílur í dag.

Las Vegas, here we come

Við lögðum af stað til Las Vegas upp úr klukkan 10 og gekk ferðin mjög vel fyrir utan smá tafir fyrstu kílómetrana á meðan við vorum að komast út úr LA. Við tékkuðum okkur svo inn á glænýtt La Quinta hótel rétt upp úr klukkan16 og hvíldum okkur aðeins og gengum frá þyrlufluginu áður en við fórum niður á Strip til að skoða ljósadýrðina. Á miðjum rúntinum var svo hringt frá Þyrlu liðinu og okkur tjáð að við yrðum að breyta umsömdum tíma, 9:20 í 6:20. Þetta gerði það að verkum að við vorum mætt í morgunmat á laugardeginum þegar opnað var kl 6 og lögð af stað í ógleymanlegt þyrluflug 20 mínútum síðar. Þegar við komum til baka upp úr klukkan 10 þá drifum við okkur út að Hoover stíflunni og vorum komin til baka til Vegas um kl 13 til að skoða Strippið í björtu. Við kíktum svo aðeins í búðir og fengum okkur að borða áður en við lognuðumst út af eftir langan og viðburðarríkan dag.