Ævintýralegur dagur

Við vöknuðum í morgun ekki við vekjarann í símanum heldur við viðvörunabjölluna á hótelinu. Ég kíkti út um augað á hurðinni og sá reyk svo við drifum okkur í einhverjar spjarir, tókum vegabréfin, peninga, lykla og annað sem við mundum eftir og drifum okkur niður tröppurnar. Sáum að herbergið á móti okkur var opið og reyk lagði út frá því. Við vorum með þeim fyrstu út og fólk dreif sig niður misklætt og misjafnlega á sig komið syfjað og vitlaust. Við vorum ekki mjög syfjuð eftir að hafa vaknað nokkrum sinnum um nóttina við einhver læti en spáðum ekkert í það á þeim tíma. Fljótlega var ljóst að ekki var um eld að ræða en reyk lagði frá herberginu á móti okkur. Niður kom einhver slökkviliðsmaður og sagði að hæðin okkar 2. hæð væri lokuð og farið með hana sem “crime scene” og að við fengjum ekki að fara upp nærri strax. Það hentaði okkur ekki því að við höfðum ætlað að leggja mjög snemma af stað til Stan og Söru en fljótlega fór einhver inn og við fylgdum í kjölfarið og fórum inn á 2. hæð sóttum allt draslið okkar og höfðum okkur á burt. Meira seinna um viðburðaríkan dag hjá Stan og Söru 😉