Siglingin hafin

Nú koma loksins fréttir af okkur 🙂 Við lentum í smá ævintýri, við þurfum alltaf að hafa smá spennu í hlutunum svona þegar við erum stödd í útlöndum. Við vorum að krúsa um internetið í leit að upplýsingum, þegar tölvan okkar gaf upp öndina. Við vorum þá stödd á hótelinu í Miami síðasta kvöldið fyrir siglinguna og gátum því ekkert bloggað eða haft samband heim nema þá bara að nota símann 🙁 Við fórum því um morguninn á siglingardaginn í Best Buy og þeir mældu fyrir okkur straumbreytinn, sem reyndist vera ónýtur. Við keyptum því nýjan og nú verður hægt að segja ykkur skemmtilegar ferðasögur 😉 Við erum núna stödd einhvern staðar út á ballarhafi, 17 mílur frá Kúbu var sagt í kallkerfið á skipinu rétt áðan og erum við á leið til Haiti en þar munum við fara í land á morgun. Það gekk vel að skila bílnum við flugvöllinn og þaðan tókum við rútu að höfninni á vegum bílaleigunnar. Það gekk líka afskaplega vel að tékka okkur inn á skipið og eftir að hafa fengið Sea Pass sem eru skilríki okkar hér á skipinu kíktum við á herbergin. Herbergi afmælisbarnsins er eins og svíta en okkar er aðeins minna 🙁 Við fórum að því loknu upp á Windjammer til að fá okkur eitthvað í gogginn. Í millitíðinni keyptum við okkur inn í gossamfélagið á skipinu og duttum bara í gosið…. Gærkveldið var fínt og við með útsýni yfir hafið á besta stað í skipinu vil ég fullyrða við kvöldverðarborðið. Það var flott að sitja og fylgjast með Miami fjarlægast okkur á meðan við borðuðum þriggja rétta máltíð. Í morgun vöknuðum við hjónin svo snemma og drifum okkur í ræktina, já í ræktina og hömuðust á hinum ýmsu tækjum og tólum. Síðan var farið í sturtu og svo í morgunmat, sem var að hollari taginu, við erum nefnilega hætt í Atkins kúrnum og komin í hollustuna. Eftir það skoðuðum við hluta af skipinu og ætlum að lokum að slappa af og sóla okkur á svölunum okkar 🙂 Þess má geta að í morgun var bankað upp á hjá afmælisbarninu og honum færður blómvöndur frá starfsfólki Danska Sendiráðsins (sjá mynd). Við höfðum stuttu áður mætt á staðinn og sungið fyrir hann afmælissönginn 😉

Afmælisbarnið