Í vikulokin

Nú er enn ein helgin liðin og komið að nýrri vinnuviku, ja hvað tíminn er fljótur að líða 🙂 Það hefur verið mikið að gera um þessa helgi hjá okkur, fyrir utan fasta liði eins og innkaup og þvotta, þá fórum við mæðgur tvisvar í ræktina í gær. Við fórum í „laugardagsfjör“ ótrúlega skemmtilegan danstíma og síðan hittum við þjálfara sem sýndi okkur tækjasalinn. Við getum nú farið að bæta við æfingaprógrammið og farið að sprikla í salnum og pumpað vöðvana í hinum ýmsu tækjum, bara skemmtilegt eða þannig 😉 Í dag fórum við svo með litla vinkonu okkar, hana Ísabellu í leikhús. Við sáum „Skilaboðaskjóðuna“ ótrúlega skemmtilegt leikverk bæði fyrir börn og fullorðna. Edda var að upplifa barnæskuna eða þannig, því hún sá þetta leikverk þegar hún var svona 7-8 ára og spilaði gat á segulbandsspóluna sem hún átti með leikritinu. Ég held hún hafi bara skemmt sér eins vel núna, ég gerði það alla vega og ég held að Ísabella hafi líka skemmt sér mjög vel. Alltaf gaman að fara í leikhús. Nú er bara rúm vika í ferðina okkar og ég skreið inn í geymslu eftir ferðatöskum í morgun um leið og ég tók svolítið til í geymslunni. Maður verður nú að fara að hugsa fyrir því hvað sett verður í þær, því eins og þeir vita sem lesa þessa vitleysu í mér hér á síðunni, þá hef ég þá leiðu tilhneigingu að pakka alltof miklu 🙁 En kannski verð ég bara skynsöm í þetta skiptið og pakka hæfilegu… en nóg með það, það styttist í háttatíma og ég er að hugsa um að hætta þessu að sinni. Þar til næst…