Smá fréttir af Miðbrautinni

Héðan af Miðbrautinni er allt gott að frétta, lífið gengur sinn vanagana að vanda. Við erum held ég alveg komin til baka frá Ameríkunni, bæði andlega og líkamlega, svefninn kominn á rétt ról og allt eins og það á að vera. Tíminn flýgur áfram, það er alltaf helgi finnst mér eiginlega. Maður fer í vinnuna og ræktina og svo er bara komið kvöld. Það gengur vel í ræktinni hjá okkur mæðgum og svo fer nú að líða að því að Þorvaldur fari að mæta og rækta kroppinn 😉 Við í vinnunni hittumst svo einu sinni í viku og æfum magadans, það er ótrúlega gaman að hittast og dansa undir stjórn hennar Nadíu sem kennir okkur. Nú það eru s.s. litlar aðrar fréttir af bænum nema að í gærkveldi fórum við mæðgur, þ.e. ég og dóttir mín á alveg geðveika tónleika með Sálinni. Sálin hélt nefnilega afmælistónleika í gærkveldi og við látum nú ekki svoleiðis skemmtun fara fram hjá okkur. Það var ótrúlegur mannfjöldi sem söng með og dansaði og maður gleymir þessu nú seint 🙂 Í dag fórum við svo í laugardagsfjör hjá henni Ásdísi og þar er alltaf fjör og mikið svitnað, sem er bara gott. Núna eru bara rólegheit á laugardagskveldi með bloggi og fleira skemmtilegu, heyrumst síðar…

Og lífið heldur áfram

Nú erum við bara komin á heimaslóð og lífið farið að verða eins og vanalega. Við vorum í svo lélegu internetsambandi í Orlando að ég nennti ekki að reyna setja inn færslu, þannig að nú er síðasta færsla ferðarinnar sett hér inn um kl. 22 á fimmtudegi hér á Miðbrautinni 🙂 Við gerðum ýmislegt þegar við komum til Orlando frá St. Pete, fórum í mínígolf, versluðum smá og höfðum það bara notalegt, þrátt fyrir að vera með herbergi í sitt hvorum endanum á ganginum (maður fékk bara trimm út úr því). Karlpeningurinn fór í leiðangur eftir gleraugum og til að finna verkfærabúð en hún reyndist nú bara vera auglýsing á bílskrjóði í botnlanga íbúðargötu en ég held að þeir hafi nú bara skemmt sér og hlegið yfir því 😉 Á meðan fórum við konurnar í Florida Mall og kíktum á ýmislegt, fengum okkur ís og biðum smá eftir körlunum. Við vorum að hugsa um að fara að syngja og sjá hvort við gætum ekki unnið okkur inn smá pening en hættum við það. Ferðin heim gekk mjög vel, tók aðeins rétt rúma 6 tíma en það var troðfull vél og lítið hægt að sofa 🙁 Þorvaldur fór fljótlega í vinnuna eftir að við komum heim en við Edda mættum kl. 12 og vorum frekar framlágar. Gamla lét það nú ekki aftra sér og mætti galvösk í ræktina til Báru, svo að nú verður bara tekið á því. Kristján á hins vegar frí fram að helgi, heppinn 😉 Ég er búin að taka upp úr töskunum og ganga frá þeim en er það mikill léttir þegar búið er að ganga frá öllu saman, þvo og þvíumlíkt….

Síðasta nóttin á South Beach Condo Hotel

Jæja nú er síðasta nóttin hér á South Beach Condo hótelinu á Treasure Island að verða að veruleika 🙁 Við sitjum hér hjónin og horfum á Bourne Idendity eða Þorvaldur horfir og ég skrifa þessa færslu. Ég hef lokið við að pakka niður en við eigum að losa íbúðirnar í fyrramálið klukkan 10. Þá verður haldið af stað til Orlando en við þurfum að koma við í Vision Works sem er gleraugnabúð þar sem við hjónin fjárfestum í gleraugum í dag. Ég þarf að láta lagfæra mín gleraugu aðeins en svo er okkur ekkert að vanbúnaði að segja skilið við St. Pete í þessari ferð. Við höfum átt hér góða daga í afslappelsi og fleiru skemmtilegu, við höfum náð aðeins brúnum lit á húðina og ég náð í nokkur bit að vanda. Mér tekst alltaf að ná mér í svona bit af einhverju tagi í þessum ferðum mínum, hlýt að vera svona góð á bragðið humm… 😉 Nú er Bourne búin og Law and order að byrja, best að glugga aðeins á það, svo þar til næst “hasta la vista baby” 🙂