Skemmtileg helgi

Nú er þessi skemmtilega helgi búin og komin ný vinnuvika. Ég hef nú ekki verið neitt sérlega dugleg að skrifa færslur hérna, það er eitthvað búið að vera svo mikið að gera eða þannig 🙂 Enn hérna koma smá fréttir af okkur. Við hjónin eyddum helginni á Laugarvatni ásamt skólasystkinum Þorvaldar og mökum þeirra í 30 ára endurfundunum. Við mættum á föstudaginn um kl. 20 og voru þá þó nokkrir mættir á svæðið, hressir að vanda. Helgin leið svo með fjöri, sögum, dansi m.a. magadansi sem ég stjórnaði aðeins, blak, yatzy, góðum mat og drykk og svo var auðvitað farið í heita pottinn. Var þetta hin besta skemmtun og vil ég fyrir hönd okkar hjóna þakka öllum sem sáu sér fært að mæta fyrir frábæra skemmtun og samveru 😉 Þorvaldur er svo á leið til Noregs í fyrramálið og hittir hann Kristján í flugstöðinni en hann kemur heim frá NY í fyrramálið, svo styttist nú óðum í ferðina hjá Eddu og Gumma en þau fara til Mexikó eftir tæpan mánuð. Þannig að það er nú bara ég eina manneskjan á heimilinu sem ekki er á faraldsfæti 🙁 Það lagast kannski bara í sumar, því ég er að reyna að skipuleggja ferð með mínum eina sanna ef hann getur farið í frí á sama tíma og ég… Jæja ég læt þessu lokið í bili, set kannski bara nokkrar myndir inn af 30 ára endurfundunum á næstunni 😉

Tíminn líður

Já tíminn líður svo sannarlega hratt komin miður apríl næstum og ég hef ekkert skrifað á síðuna síðan í mars. Það hefur svo sem ekki margt gerst á þessum tíma, jú gamla tognaði aðeins á ökkla. Bara svona hrasaði um sjálfan sig eiginlega en stundum gerist þetta 🙁 Hef haft hægt um mig þessa vikuna farið í jóga í staðinn fyrir tímana hjá Báru en ég hafði það markmið að komast í laugardagsfjör og það tókst hjá mér jibbíjei dansaði þar með fullt af konum, vorum fjórar úr átakinu. En aldrei þessu vant var ótrúlega mikið um snúninga og hringi hjá henni Ásdísi, kannski í tilefni af því að ég átti mjög erfitt með þá vegna ökklans en ég hafði þá bara mína útgáfu af dansinum eða þannig 😉 Í síðustu viku hitti ég gamlar vinkonur og samstarfsmenn, á miðvikudaginn bauð hún Dabba okkur heim þ.e. gömlu gellunum af Fögru og Litlubrekku. Það var ótrúlega langt síðan við hittumst síðast og svei mér þá ef þessar konur yngjast ekki bara með aldrinum (alla vega í anda)… Á fimmtudagskvöldið komu svo Halla, Dóra og Laufey í heimsókn til mín, það er ekki alveg eins langt síðan ég hitti þær. Það er alltaf mjög gaman að hittast svona, kjafta saman, borða góðan mat og bara hlæja 🙂 Nú er að hefjast ný vinnuvika sem verður liðin áður en maður veit af, um næstu helgi er svo mömmuhelgi hjá okkur Þorvaldi en þá kemur tengdó í heimsókn til okkar. Svo styttist nú óðum í reunionið á Laugarvatni, maður verður að fara æfa sig af fullum krafti fyrir það, því að þar hittist hresst lið sem kallar ekki allt ömmu sína eða þannig. Það styttist líka í það að Kristján fari til New York en hann ætlar þangað á ráðstefnu m.a. og svo líka til að skoða „The Big Apple“. Ég dauðöfunda hann því að ég hef ekki enn komið á þennan áfangastað í USA en er á leiðinni í nánustu framtíð 😉 Ég er að gæla við það að fara eitthvað til útlanda í sumarfríinu en ég hef ekki farið eitthvað í sumarfríinu síðan við hjónin fórum með Eddu og Gumma til London 2005. Jæja ég held að ég fari að hætta núna í bili, þar til næst… bless