Mánudagur til mæðu… ekki alveg

Ég skil ekki alveg þetta með mánudagur til mæðu, mér finnst þeir oft alveg ágætir sérstaklega þegar maður er í sumarfríi. Geta kannski stundum verið til mæðu svona yfir háveturinn þegar það er leiðinglegt veður og maður kemst ekki út með börnin í leikskólanum. Allir pirraðir og þreyttir eftir helgina og svona. En í morgun var hann sko aldeilis ekki til mæðu. Ég byrjaði á að skreppa í sund í Neslaugina góðu, eftir að hafa synt fór ég í nuddpottinn sem er alveg guðdómlegur. Hann jafnast þó ekkert á við hana Stínu nuddara, sem ég er aðeins farin að sakna en hún er líka í sumarfríi. Þegar heim var komið setti ég í vél og kjaftaði svo við hana Eddu sem var að gera sig klára fyrir ferðalagið. Eyddi svo einhverjum tíma í að sleikja sólina í kjallaranum sem að virkaði eins og bakarofn eða þannig. Þorvaldur skrapp aðeins heim um miðjan dag, eftir að hafa farið á heilsugæslustöðina. Við ræddum um ýmislegt m.a. um gamlan framhaldsþátt sem heitir MacGuywer eða eitthvað þvíumlíkt, var sýndur fyrir hundrað árum eða svo. Mig minnir að hann hafi verið frekar spennandi á þeim tíma en gæti virkað frekar hallærislegur núna. Ég fór svo í Blómaval til að kaupa nokkur blóm til að setja í eyðurnar eftir túlipanalaukana. Eins og mér finnst túlipanar fallegir þá hata ég eyðurnar sem oft myndast þegar þeir deyja. 😉 Er þetta ekki bara gangur lífsins. Við Kristján gerðum svo pizzu sem við borðuðum með bestu list yfir fréttunum. Þorvaldur kom svo heim seint og um síðir, er vaktstjóri þessa viku greyið, í sólinni og blíðviðrinu. 😉

Alltaf sama góðviðrið

Jæja nú er komið enn eitt sunnudagskvöldið og er dagurinn bara búinn að vera góður. Við hjóluðum hringinn okkar snemma í morgun (ef 10 er snemma) og eftir það fór Þorvaldur og sótti mömmu sína á Grundina. hún eyddi með okkur deginum. Við byrjuðum á að sitja úti og sleikja sólina og tengdó fékk að prófa Ipod í fyrsta skipti (sjá mynd). Við hlustuðum á sakamálaleikritið á rás 1 „Sá yðar sem syndlaus er“ fyrsta hluta af þrem. Skemmtilegt en kannski svolítið erfitt að átta sig algjörlega á persónunum svo fyrst til að byrja með. Eftir að hafa hlustað drifum við okkur í heimsókn til mömmu og pabba á Hraunbrautinni. Við keyrðum eftir Ægisíðunni, upp að Öskjuhlíðinni niður að Nauthólsvík, rosalega voru margir á ylströndinni ekki bílastæði að sjá. Mikið af fólki á ferðinni enda ekki hægt annað en að vera úti í þessu blíðviðri. Þegar komið var á Hraunbrautina fengum við kaffi og með því, geðveika rjómatertu uhm…, vöfflur, rjóma o.fl. Eftir að hafa gúfað í sig settumst við út í garð sem er alltaf jafn blómlegur og fallegur enda er gamli með græna fingur. Ég vildi óska að ég hefði erft þá en þetta liggur kannski ekki alveg í genunum, maður þarf kannski bara að hafa mikinn áhuga. Það koma hér á eftir myndir af gamla settinu, Þorvaldi, tengdó og blómunum.

Blóm #1 Blóm #2
Amma Sigga Mamma og amma Sigga
Gömlu hjónin Tobbi og amma Sigga

Jæja nú er ný vika að hefjast, önnur vika í sumarfríi, mikið óskaplega líður tíminn annars hratt. Úrslitaleikurinn í Copa Ameríka er núna, seinni hálfleikurinn að hefjast og Brasílía er yfir 2-0. Ég ætti kannski bara að góna á það eða gera bara hreinlega eitthvað annað. Sjáumst og heyrumst. 😉

Yndislegur laugardagur

Veðrið búið að leika við okkur í dag, vöknuðum frekar snemma miðað við laugardag, við það að turtildúfurnar úr Skipholtinu komu að kíkja á tjaldið. Gummi hafði ekki séð herlegheitin og þurfti að leggja blessun sína yfir gripinn áður en haldið verður af stað í ferðalagið. Þegar búið var að nudda stýrurnar úr augunum og bursta tennurnar, fórum við svo í Kópavoginn að skila slátturgræjunum, með viðkomu í Sorpu til að henda rusli. Síðan var farið í Bónus til að fylla á birgðir heimilisins o.fl. Við sóttum tengdamömmu á Grundina upp úr hádegi en hún beið spennt eftir okkur. Við sátum svo í kjallaranum og létum sólina steikja okkur eða hlýja allt eftir hvernig á það sé litið, það sem eftir lifði dags. Hlustuðum við á leikritið „Líkið í rauða bílnum“ og höfðum það bara náðugt. Um kl. 17 setti Þorvaldur lambalæri á grillið, uhm, sem var næstu tvo tíma að eldast. Við áttum von á mömmu og pabba í mat. Alls voru átta manns í mat og gerðu lambalærinu með tilbehör góð skil. Svo var ís, bláber og jarðaber í eftirrétt. Jarðaberin voru því miður ekki úr garðinum okkar en voru samt góð. Gummi fékk næstu tvö jarðaber úr uppskerunni og ég held að honum hafi líkað þau. Nú er bar um að gera að horfa á leikinn um 3. sætið í Copa America. 😉