Góður dagur

Dagurinn í dag er aldeilis búinn að vera góður og drjúgur. Fór í sund eldsnemma, synti og fór í nuddpottinn. Þegar ég kom heim fékk ég mér næringu, las blöðin og hófst svo handa við verkefni dagsins. Verkefni dagsins var eldhúsið, eftir að hafa tekið draslskúffurnar í gær, lá beinast við að taka næsta verkefni fyrir. Ég sem sagt tók eldhúsið og þreif það hátt og lágt, skipulagði og henti ég veit ekki hvað miklu drasli. Var að horfa á Opruh í kvöld og þátturinn var um drasl og því sem fólk sankar að sér, haha, mér leið ekkert smá vel að horfa á þáttinn eftir að hafa tekið til í eldhúsinu mínu. Dagurinn entist rétt svo, því ég bjó til lasagna þegar ég var búin og það var tilbúið þegar húsbóndi heimilisins kom heim úr vinnunni. Á morgun ætla ég að fara í sund og svo til mömmu og pabba, því að mamma saumameistari ætlar að aðstoða dóttur sína smávegis. Það verður bara gaman. 😉

Legið í leti eða næstum því

Ég held ég hafi verið með smá fráhvarfseinkenni frá sólinni í dag, bara ský þar til seinnipartinn. Ég gerði nánast ekki neitt til hádegis, ég er í sumarfríi, byrjaði þó á bók sem ég hef mjög lengi ætlað að byrja á. Bókin heitir „Þriðja táknið“ og er eftir skólasystur mína úr Való forðum dag, hana Yrsu Sigurðardóttur. Mér líst bara nokkuð vel á það sem ég hef lesið sem er þó nokkur slatti miðað við minn lestrarhraða. Jú ég gerði tvennt af því sem ég ætlaði mér að gera í dag eða næstu daga. Fyrst þá spretti ég upp tveimur buxum sem móðir mín saumameistarinn ætlar að hjálpa mér að breyta í pils, endurnýting eins og hún gerist best ekki satt. Í annan stað þá tókum við sonur minn til í draslskúffunum, við eigum eiginlega þrjár. Það var nú satt að segja hann sem dreif mig í þetta verkefni, skúffurnar hafa farið mjög í taugarnar á honum og kannski mér líka. Maður fann aldrei neitt í þeim, eða er það ekki þannig farið með draslskúffur. Nú eigum við aftur á móti enga skúffur með drasli í, heldur vel skipulagðar skúffur þar sem allt er sýnilegt eða þannig. 🙂
Ég verð nú að minnast á kvöldmatinn okkar, við útbjuggum nefnilega guðdómlega kínverska súpu með kjúklingaívafi namm namm, ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina. 😉
Jæja ekki meira í dag því nú ætla ég bara að lesa meira í bókinni minni góðu.