Yndislegur laugardagur

Veðrið búið að leika við okkur í dag, vöknuðum frekar snemma miðað við laugardag, við það að turtildúfurnar úr Skipholtinu komu að kíkja á tjaldið. Gummi hafði ekki séð herlegheitin og þurfti að leggja blessun sína yfir gripinn áður en haldið verður af stað í ferðalagið. Þegar búið var að nudda stýrurnar úr augunum og bursta tennurnar, fórum við svo í Kópavoginn að skila slátturgræjunum, með viðkomu í Sorpu til að henda rusli. Síðan var farið í Bónus til að fylla á birgðir heimilisins o.fl. Við sóttum tengdamömmu á Grundina upp úr hádegi en hún beið spennt eftir okkur. Við sátum svo í kjallaranum og létum sólina steikja okkur eða hlýja allt eftir hvernig á það sé litið, það sem eftir lifði dags. Hlustuðum við á leikritið „Líkið í rauða bílnum“ og höfðum það bara náðugt. Um kl. 17 setti Þorvaldur lambalæri á grillið, uhm, sem var næstu tvo tíma að eldast. Við áttum von á mömmu og pabba í mat. Alls voru átta manns í mat og gerðu lambalærinu með tilbehör góð skil. Svo var ís, bláber og jarðaber í eftirrétt. Jarðaberin voru því miður ekki úr garðinum okkar en voru samt góð. Gummi fékk næstu tvö jarðaber úr uppskerunni og ég held að honum hafi líkað þau. Nú er bar um að gera að horfa á leikinn um 3. sætið í Copa America. 😉