Endurnýtingardagurinn mikli

Jæja ég fór í Kópavoginn í morgun og við mæðgur bjuggum til pils úr tvennum gallabuxum sem frúin var hætt að nota. Það var nú kannski bara mamma sem átti heiðurinn af þessum breytingum, ég overlokkaði og straujaði, góð í því… Alltaf jafn gaman að sauma en ég geri alltof lítið af því upp á síðkastið, ég skil ekki af hverju. Það var notalegt að sitja með mömmu og pabba og tala um ýmislegt. Við ræddum m.a. um ferð sem við ætlum saman í febrúar en þá á gamli stórafmæli og þau gömlu brúðkaupsafmæli, við látum á liggja á milli hluta um hve stórt það er. En annars við ætlum að sigla á Karíbahafinu, þið vitið að ég er skemmtiferðaskipafíkill og er að reyna að fá fleiri með mér í þetta og er búin að takast að smita þau gömlu. Ætlunin er að sigla í kringum Kúbu með Freedom of the Seas, sem er að ég held 160 000 tonn, engin bátur heldur alvöru skip (smá grín úr síðustu ferð). Það er kominn mikill hugur í okkur út af þessari ferð og erum aðeins farinn að skipuleggja hvað við gerum meira. Kemur í ljós síðar. 😉
Eftir að ég kom heim hafði ég það bara náðugt, nennti ekki að fara að taka til en ætlunin er að klára að taka til í skápunum í sumarfríinu, hef tvær vikur til stefnu. Kannski verður rigning á morgun og þá get ég bara dembt mér í þetta verkefni, hver veit!