Smá fréttir

Það hefur verið smá leti í gangi í blogginu, ég hef verið að nota tímann í annað eða átakið sem við mæðgur erum í World Class. Í dag fór ég í alveg ótrúlega skemmtilegan salsa tíma, brennsla og mjaðmadillur ótrúlega gaman. Við erum alveg að koma til í þessu og rosalega áhugasamar þó ég segi sjálf frá, smá mont 😉 En annars tæpar þrjár vikur í sólina og sumarið í Florida og Karíbahafið, er það ekki bara yndislegt til þess að hugsa. Nú þarf maður bráðum að fara að hugsa um hvað maður þarf að taka með sér eða ekki taka með sér. Ég er einhvern veginn þeirri áráttu haldin að taka allt of mikið með mér, þá meina ég allt of mikið 🙁 Hef hugsað mér að skoða gamlar myndir eða frá því í siglingunni í fyrra og sjá hvað maður var virkilega að nota, er það ekki bara góð hugmynd? Annars gengur lífið sinn vanagang hér á Miðbrautinni. Þorvaldur greindist með sykursýki fyrir tveimur vikum og var sagt að taka til í matarræðinu og hefur hann aldeilis gert það og er búin að koma sér upp nýjum lífstíl, rosalega duglegur að mínu mati. Það hentar mér ágætlega því að ég þarf líka að passa sykurinn í mínu fæði og svo er það auðvitað átakið 🙂 Edda fór í endajaxlatöku fyrir rúmri viku og gekk það bara vel, þetta var þó meiri aðgerð en tannlæknirinn gerði ráð fyrir svo hún var heldur lengur að ná sér. Smá kvefpest hefur verið að hrjá okkur svona eins og gengur og gerist. Kristján vinnur á fullu í Orkuveitunni og ræktar líkamann þess á milli. Á morgun förum við mæðgur ásamt nokkrum vinnufélögum á ráðstefnu hjá Talþjálfun Reykjavíkur og hlakka ég mikið til að fara. Það er alltaf gaman að fræðast um málþroska barna, hvað er hægt að gera til að örva hann og fá að vita um ýmiss vandamál sem geta orðið. Jæja nú er best að hætta þessu í þetta sinn, ég ætla hvorki að minnast á landsliðið né borgarpólitíkina en ég gæti auðveldlega sagt nokkur orð um þetta 😉