Gleðilegt ár :)

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla 😉 Það er til siðs hér á landi að gera upp gamla árið við áramót og ætla ég að gera það líka. Það má segja að árið hafi verið okkur hér á Miðbrautinni ánægjulegt þegar á heildina er litið. Ég skipti um starfsvettvang í maí, fór að vinna í Sólbrekku aftur og hef fundið að þar á ég heima (þangað til annað kemur í ljós eða þannig). Þorvaldur skipti um starf innan Elkó núna um áramótin, hætti sem deildarstjóri hvítu deildarinnar og tók við innkaupastjórastarfi og held ég að það leggist bara vel í hann. Við hjónin fórum í vel heppnaða síðbúna brúðkaupsferð í september, eyddum tíma í Orlando og náðum einni siglingu í Karíbahafið en þess má geta að siglingar eiga huga okkar þessa dagana. Við ætlum að skella okkur í eina slíka með gamla settinu á Hraunbrautinni í febrúar. Ég var á faraldsfæti á þessu ári, fór fyrst í maí ásamt Eddu og öllum hinum sem vinna í leikskólum Seltjarnarness að skoða leikskóla í Prag. Þetta var mjög skemmtileg, fróðleg og má segja vel heppnuð ferð í alla staði. Svo fórum við hjónin til Orlando í september og í nóvember fór ég ásamt henni Helgu Lottu fyrrverandi vinnufélaga og vinkonu til Boston og Chicago en þar fórum við á mjög skemmtilega og fróðlega ráðstefnu, NAYEC en það eru eins konar regnhlífasamtök kennara yngri deilda, þ.e. leik og grunnskóla út í henni stóru Ameríku. Afskaplega eftirminnileg ferð og ég býð eftir að komast aftur 🙂 Sumarið var afar sólríkt og við hjónin notuðum hjólhestana okkar mikið í að skoða nágrennið, hjóluðum um Stórreykjavíkursvæðið. Líkamsræktin hefur samt setið aðeins á hakanum ef tekið er meðaltal yfir árið en suma mánuði hefur verið tekið vel á. Þetta stendur nú allt til bóta á nýju ári enda hefur verið opnuð þessa fína líkamsræktastöð á Nesinu, svo aldrei er að vita nema konan skipti um stöð til að æfa kroppinn í 😉 Af börnunum er allt gott að frétta, Kristján er í vinnu hjá Orkuveitunni og unir hag sínum vel, hyggst á framhaldsnám í framtíðinni en ekkert er ákveðið enn. Edda vinnur í Sólbrekku og stendur sig með prýði. Hún ákvað á haustmánuðum að hætta í byggingarverkfræðinni og taka sér hvíld frá náminu, hún tók sér líka hvíld frá Elkó en hún hefur verið að vinna þar aðra hverja helgi. Hún hefur verið að velta framtíðarnámi fyrir sér og það kemur bara í ljós hvað verður fyrir valinu áður en langt um líður. Gummi er að klára Fjöltækniskólann og heldur áfram að læra meira ef ég þekki hann rétt en þetta á allt eftir að koma í ljós. Mamma og pabbi eru hress að vanda, hlakka mikið til ferðarinnar í febrúar og það má með sanni segja að ég vonast til að vera jafn hress og þau þegar ég kemst á þeirra aldur ef ég geri það yfir höfuð 😉 Tengdó er á Grund og er hjá okkur fjórðu hverju helgi, hún er mishress, stundum eitilhress og spilar hún þá með okkur í olsen, rommí og svona spilum. Stundum horfir hún með okkur á fótbolta í sjónvarpinu og drekkur súkkulaðikaffi sem er í miklu uppáhaldi. Við hin erum með hestaheilsu svona flesta daga, þó stundum hrjái okkur flensa eða aðrar umgangsbestir. En þegar á heildina er litið þá hefur árið 2007 verið okkur bara nokkuð gott og vonandi að 2008 verði það bara líka 🙂