Þriðji dagur í sumarfríi

Edda á Þingvöllum Gróa og ND480

Nú er þriðji dagur í sumarfríi að kveldi kominn. Góður dagur myndi ég segja, hér fyrir ofan eru myndir úr bíltúrnum okkar mæðgna á mánudaginn. Frúin stendur við nýja bílinn sinn, sem er nú búin að þjóna fjölskyldunni bara vel því Kristján átti hann á undan mér. Við mæðgur byrjuðum morguninn á að fara í ræktina en þangað hef ég nú ekki komið í u.þ.b. tvo mánuði. Fyrst fór ég í smá aðgerð og svo lenti ég í reiðhjólaslysi, sem ég hef verið að reyna að ná mér af. Tveir skrítnir, tognaðir og hálf óvirkir puttar en voru nothæfir í ræktinni. Eftir að hafa eytt einum og hálfum tíma þar tók hálfgert afslappelsi við, Edda er búin að ná sér í gamalt og gott íslenskt kvef og hnerrar eins og brjáluð manneskja eða þannig. Í kvöld fórum við hjónin svo í okkar venjulega hjólatúr og kom Edda með okkur. Alltaf jafn gaman að hjóla. 🙂

Við tíndum fyrstu tvö jarðaberin af uppskeru sumarins og skiptum þeim bróðurlega á milli heimilismanna (Gummi fékk ekkert því hann var ekki á staðnum). Það er mynd að uppskerunni fyrir neðan en vonandi verður nóg af berjum í „heila“ jarðaberjatertu þegar yfir líkur. En annars, þau brögðuðust guðdómlega.

Jarðaber Gróu

Á morgun förum við mæðgur í nagladekur hjá Jóhönnu góðvinkonu okkar og ætlar Björg að koma með okkur, þetta verður bara gaman. 🙂

Góður dagur

Yndislegur dagur að kveldi kominn. Var að koma úr 10 km hjólatúr með Björgu, hún var reyndar á línuskautum en ég á hjóli. Við fórum eftir Ægissíðunni inn að kirkjugarði settumst á bekk þar og nutum veðurblíðunnar. Edda og ég gengum stóra Neshringinn fyrr í dag í sól og blíðu. Maður er bara komin með góða brúnku og skrítin för á bakið eftir hina ýmsu hlíraboli, svona eins og tígrísdýr. Hver segir að það þurfi að fara til sólarlanda til að fá brúnku á skrokkinn! Á morgun á svo að fara í ræktina og njóta svo góða veðursins (maður reiknar með því að það verði áfram sól og sumar). 😉

Gott að vera í sumarfríi

Já það er sko gott að vera í sumarfríi. Í morgun dúllaði ég mér bara og fór svo í sund og synti mínar ferðir að vanda og svo í heita pottinn. Hitinn fór í 22° meðan ég var í lauginni. Ég hitti fullt af fólki sem ég spjallaði við. Þegar heim var komið hengdi ég upp tau, tékkaði á pósti og setti smá orðsendingu inn. Á eftir fer ég svo til Siddýar á Permu, hitti Eddu sem er að láta gera sig fína og svo verður frúin klippt og gerð fín en ekki hvað. 🙂