Loksins loksins

Jæja loksins sest ég niður og pára einhverja bölvaða vitleysu eða þannig. Ég hef verið haldin einhverri ritstíflu eða er það ekki það sem hrjáir rithöfunda eða flokkast þetta kannski bara undir alíslenska leti? En það hefur nú runnið mikið vatn til sjávar síðan síðast haha 🙂 Það er alltaf nóg að gera í vinnunni en það hefur samt verið ótrúlega mikið um veikindi á börnunum undanfarið og vonandi fara þau nú að hressast fljótlega. Í byrjun nóvember ætla ég að fara með henni Helgu Lottu vinkonu minni og samstarfsmanni til margra ára til Ameríku. Þar ætlum við að kynna okkur ýmislegt sem tengist leikskólamálum. Við fljúgum til Boston og þaðan áfram til Chicagó þar sem ráðstefnan er, þetta verður vonandi mjög fróðlegt og við komum örugglega heim með fullt af hugmyndum sem við getum nýtt okkur í starfi 😉 Um síðustu helgi fór svo stórfjölskyldan í sumarbústað í Skyggnisskóg, þ.e. við hjón, Edda, mamma og pabbi en ekki Kristján (sem var í vinnu) og Gummi (sem skrapp á sjóinn i veiðiferð). Mamma, pabbi og Þorvaldur fóru seinni part föstudags en við Edda lögðum í hann undir kvöld. Á leiðinni hrepptum við það ógeðslegasta veður sem ég hef upplifað á Íslandi. Það rigndi svo mikið að þurrkurnar höfðu ekki undan, liggur við eins og sturturigningin í Flórida í september og svo var svo mikið rok að við keyrðum nánast á 50 hálfa leiðina því skyggnið var ekki upp á marga fiska. Það hafði nú samt ekki nein áhrif á glannana sem þustu fram úr okkur þegar færi gafst, þeir hurfu út í veður og vind á 90 eða yfir. En þeir hafa nú samt komist á leiðarenda, því við sáum enga árekstra á leiðinni sem betur fer. Mér finnst að þessi glannar, það má taka fram að þeir voru allir á jeppum eða pickupum (ekki góð íslenska en hvað með það), mættu aðeins hugsa betur um að keyra eftir aðstæðum 🙁 En við komumst sem betur fer heil á leiðarenda og áttum yndislega daga í sumarbústað Starfsmannafélags Seltjarnarness. Við lágum í leti í pottinum eða bara í sófanum og gerðum sem minnst, samt var nú spilað, lesið og saumað út. Við grilluðum auðvitað og belgdum okkur út af mat og fíneríi alls konar 😉 Það gleymdist að hafa myndavélina góðu meðferðis svo að því miður verða engar myndasýningar að þessu sinni. Í síðustu viku fórum við mæðgur svo í mánaðarlegt update hjá Jóhönnu snyrtifræðing og svo fór frúin í yfirhalningu hjá henni Siddý í Permu. Ekki veitti af að hressa aðeins upp á háralitinn, því hann er aðeins farinn að breytast úr einhverjum nánast engum lit yfir í örlítið grátt 🙁 Já það bendir ýmislegt til þess að maður sé að eldast en maður lætur það nú ekki á sig fá, heldur fer bara að halda sig við markmiðin um að verða duglegri í ræktinni og borða hollari mat jeje… En núna er mál að fara að hressa aðeins upp á heimilið með því að taka aðeins til í skápunum áður en gubbast út úr þeim, þrífa híbýlinn og fá Þorvald kannski til að ryksjúga mesta rykið svo hægt sé að taka á móti fólki, erum alltaf heima eða þannig 😉 Þar til næst, sem verður vonandi ekki svo langt… verið hress, bless……