Ég skil ekki alveg þetta með mánudagur til mæðu, mér finnst þeir oft alveg ágætir sérstaklega þegar maður er í sumarfríi. Geta kannski stundum verið til mæðu svona yfir háveturinn þegar það er leiðinglegt veður og maður kemst ekki út með börnin í leikskólanum. Allir pirraðir og þreyttir eftir helgina og svona. En í morgun var hann sko aldeilis ekki til mæðu. Ég byrjaði á að skreppa í sund í Neslaugina góðu, eftir að hafa synt fór ég í nuddpottinn sem er alveg guðdómlegur. Hann jafnast þó ekkert á við hana Stínu nuddara, sem ég er aðeins farin að sakna en hún er líka í sumarfríi. Þegar heim var komið setti ég í vél og kjaftaði svo við hana Eddu sem var að gera sig klára fyrir ferðalagið. Eyddi svo einhverjum tíma í að sleikja sólina í kjallaranum sem að virkaði eins og bakarofn eða þannig. Þorvaldur skrapp aðeins heim um miðjan dag, eftir að hafa farið á heilsugæslustöðina. Við ræddum um ýmislegt m.a. um gamlan framhaldsþátt sem heitir MacGuywer eða eitthvað þvíumlíkt, var sýndur fyrir hundrað árum eða svo. Mig minnir að hann hafi verið frekar spennandi á þeim tíma en gæti virkað frekar hallærislegur núna. Ég fór svo í Blómaval til að kaupa nokkur blóm til að setja í eyðurnar eftir túlipanalaukana. Eins og mér finnst túlipanar fallegir þá hata ég eyðurnar sem oft myndast þegar þeir deyja. 😉 Er þetta ekki bara gangur lífsins. Við Kristján gerðum svo pizzu sem við borðuðum með bestu list yfir fréttunum. Þorvaldur kom svo heim seint og um síðir, er vaktstjóri þessa viku greyið, í sólinni og blíðviðrinu. 😉