Senn koma jólin

Nú er bara að styttast til jóla, komin 9. desember eða næstum 10. því að það líður að miðnætti. Jólaundirbúningurinn á Miðbrautinni er bara komin á gott skrið, búið að baka og reyndar borða smákökurnar (næstum allar en þær sem geymdar eru í frysti eru reyndar eftir). Gamla er líka alveg að komast í jólaskap og það gerðist bara held ég um helgina. Ef það hefði ekki gerst í gær þá held ég bara að ekki sé hægt að komast í jólaskap, svo jólalegur var dagurinn 😉 Gamla settið af Hraunbrautinni fór í aðventuferð til Danmerkur og Þýskalands í gær, svo ég varð bar að nota daginn til að komast í jólaskap, því að ekki fór ég með þeim til að upplifa jól annars staðar en á Íslandi. En hvað með það, laugardagurinn byrjaði með venjubundnum aðgerðum fara í búð og sinna viðskiptum familíunnar. Um hádegi skutlaði Kristján mér og þremur vinnufélögum á Hótel Holt þar sem við í Sólbrekku hittumst í hádeginu og borðuðum jólamat saman. Maturinn á Holtinu var í góðu lagi og félagsskapurinn góður og eftir að hafa innbyrt súpu, svínakjöt, eftirrétt, rauðvín og kaffi, gengum ég, Sólfríð (sem by the way var leynivinur minn) og Steina Laugaveginn. Það var þvílíkt jólalegt, fullt af fólki í jólaskapi, sumir sungu jólalög og sumir buðu heitt súkkulaði 😉 Eftir að hafa gengið upp Laugaveginn að Hlemmi til að kanna hvenær strætó kæmi, gengum við aftur niður að Kirkjuhúsinu og sinntum smá viðskiptum þar. Við sáum að strætó færi alveg að koma og drifum okkur niður á Hverfisgötu, þar sem við sáum að leið 11 var að koma niður götuna. Við ákváðum því að hlaupa af stað og vorum alveg að nálgast stoppustöðina þegar strætó kom, við veifuðum og veifuðum en elskulegi bílsjtórinn nennti sko ekkert að stoppa fyrir þessum kellingum sem komu þarna hlaupandi og veifuðu út öllum öngum. Við hugsuðum honum þegjandi þörfina og gátum svo ekki annað en hlegið af jólaskapinu eða not… sem við vorum skyndilega komnar í eftir að hafa verið svo gjörsamlega yfirgefnar af einhverjum aumum bílstjóra sem að ekki var tilbúin að stoppa 🙁 En við ákváðum bara að rölta aftur upp á Laugaveg og niður á Torg til að taka strætó þaðan. Sólfríð ætlaði reyndar að hitta fjölskylduna sína í Lækjargötunni svo hún yfirgaf okkur. Edda hafði verið lasin allan daginn en við mægður ætluðum á jólatónleika Bjögga Halldórs um kvöldið og hringdi hún í mig til að segja mér að hún færi ekki. Svo þá var bara að finna hana Settu, sem var nú meira en tilbúin að fara með mér á tónleikana en við Steina fundum hluta af hópnum fyrir utan Sólon og þar var hún Setta. Við ákváðum að heyrast seinna um daginn til að ákveða hvenær við færum. Ég, Steina, Ingibjörg, Dísa og Sonja röltum því niður á torg til að taka strætó, mikið óskaplega var orðið kalt og píurnar í sparifötunum orðnar heldur freðnar en svona er þetta nú ekki bæði hægt að halda kúlinu og vera heitt 🙂 Þegar ég kom heim voru Kristján og Þorvaldur heima, búnir að horfa á fótbolta en ég lagðist bara undir sæng að reyna ná í mig hita, var búin að heyra í Settu og ætlaði að sækja hana um kl. 19 sem ég og gerði. Við komum inn í Laugardalshöll tímanlega fyrir tónleikana, ofboðslega flott að sjá kastara fyrir utan sem lýstu upp himinninn (eins og í Orlando hjá Disney) og settu svolítinn svip á það sem var framundan. Við sátum nú ofarlega í stúkunni en það kom ekki að sök, þvílíkt show….. vá maður gæsahúð, sungið með og dillað sér í sætunum 😉 Helgi Björns ekkert smá flottur þegar hann söng „ef ég nenni“. Geðveikt og þegar lokalagið var sungið en það var „nei, nei, ekki um jólin“ stóðu allir upp, dönsuðu og sungu með… ekkert smá flott, lifi á þessu lengi!!! Hey ég gleymdi að segja frá hver var minn leynivinur í vinnunni í síðustu viku, það var hún Nadia sem var vinkona mín og var ég afskaplega glöð að vera vinur hennar og var mjög góð við hana í síðustu viku, að mínu mati alla vega 😉
Í dag er gamla svo búin að vera þvílíkt dugleg, er búin að skreyta allt nema jólatréið, búin að þrífa (á reyndar eftir að skúra) en hey það eru nú rúmar tvær vikur til jóla 🙂 Nú er bara að muna eftir að kaupa í matinn, gera ísinn, skrifa jólakortin og senda þau og svo eru bara jól er það ekki bara….. ef ég nenni 🙂