Laugardagurinn 21. nóvember

Laugardagurinn rann upp tiltölulega bjartur og fagur og við fengum að sofa aðeins lengur en vanalega. Við Silla byrjuðum á að kíkja á ræktina sem er með þeim betri í svona sumarhúsahverfum. Eftir að hafa farið í sundlaugina og slappað af héldum við af stað í smá könnunarleiðangur. Við byrjuðum á að fara í Downtown Disney sem núna heitir Disney Springs. Það var heitt í veðri en skýjað og búið var að spá skúrum en við sluppum alveg við þær. Gaman var að kíkja á allt í Disney og sáum við danssýningu frá krökkum sem komum frá Texas. Við fengum okkur að borða og sátum í hitanum og virtum fyrir okkur mannfjöldan og fylgdumst með íkorna sem nartaði í mylsnur sem duttu af borðunum. Eftir að hafa eytt nokkrum stundum í Disney Springs fórum við í Old Town Kissimmee og kíktum á gömlu götuna og gamla liðið sem eyðir sínum stundum þar. Við fengum okkur ís og kíktum í búðirnar sem eru smávegis öðruvísi en annars staðar. Við komum heim sáttar og sælar með daginn og smelltum okkur í sundlaugina með fínu baðhetturnar okkar. Nú erum við búnar að fá okkur yndislega drykki, ræða málin og hlægja mikið 😉

   
    
    
    
    
    
    
    
    
   

Þriðji og síðasti dagur ráðstefnunnar

Við vöknuðum klukkan 6 eins og hina dagana því við þurftum að vera komnar fyrir 8 í ráðstefnuhúsið. Við erum um það bil 30 mínútur að keyra. Þegar við mættum á staðinn flýttum við okkur til að klára þríleikinn með Music Together og vorum sammála um að við hefðum fengið mikið út úr að mæta á alla þrjá, þeir byggðu hvorn annan einhvern vegin upp 😉  Næsti fyrirlestur var um jóga og var það eiginlega sísti fyrirlesturinn af öllum þó að maður græði alltaf á öllu sem maður hlustar á. Við fengum aðeins lengra hádegishlé, því að konan sem var með jógað hætti við að láta okkur gera stöður því við vorum svo mörg. Ég skil það nú ekki alveg því það er hægt að jóga hvar og hvenær sem er alveg sama hversu margir eru á sama stað. Síðasti fyrirlesturinn stóð algjörlega upp úr, mjög hress kona með mjög margar skemmtilegar hugmyndir og leiðir til að vinna með börnum. Hún lét okkur hafa fyrir hlutunum og sungum við og dönsuðum og gerðum alls kyns æfingar allar eða einar og var ég aðallega tekin fyrir 😉 Við förum í sýninguna í hádeginu og þar hitti Steina vini sína og fékk að taka mynd. Eftir fyrirlesturinn fórum við svo og keypti ég svona teygjuband sem hægt er að nota í vinnu með börnum. Þegar við vorum svo búnar með þennan pakka fórum við í Mall at Milenia og fengum okkur girnilegan mat á hinu fræga Cheesecake Factory. Við komum svo heim eftir langan dag þreyttar og sælar eftir skemmtilega ráðstefnu 😉


  
  
  
  
  
  

  

Annar dagur á ráðstefnunni

Það er nú margt skrítið í tilverunni, eins og að þeir tveir fyrirlestrar sem við völdum um hegðun barna voru annað hvort aflýstir eða það var svo fullt að ekki var pláss fyrir okkur. Þannig atvikaðist það að við fórum í nokkra tónlistarfyrirlestra. Þar af þrír þennan daginn og einn af þeim var hjá vinum okkar í Music Together. Þrátt fyrir að hafa farið á alla þessa fyrirlestra þá voru þeir eins ólíkir eins og þeir voru margir. Þó svo að þeir séu tónlistartengdir þá fjölluðu þeir um hvernig börn læra frá því þau koma úr móðurkviði og áfram út barnæskuna. Það skemmtilega við þessa fyrirlestra er þó að þátttaka er mikil, sungið og dansað og vorum við jafnvel teknar upp til að taka þátt með kennaranum. Við kíktum líka á sýninguna og sáum margt áhugavert og skemmtilegt og ýmsa öðruvísi karaktera. Eftir að hafa eytt mestum hluta dagsins í ráðstefnuhúsinu fórum við að kanna umhverfið og stunda pínu viðskipti 😉