Loksins loksins

Jæja loksins sest ég niður og pára einhverja bölvaða vitleysu eða þannig. Ég hef verið haldin einhverri ritstíflu eða er það ekki það sem hrjáir rithöfunda eða flokkast þetta kannski bara undir alíslenska leti? En það hefur nú runnið mikið vatn til sjávar síðan síðast haha 🙂 Það er alltaf nóg að gera í vinnunni en það hefur samt verið ótrúlega mikið um veikindi á börnunum undanfarið og vonandi fara þau nú að hressast fljótlega. Í byrjun nóvember ætla ég að fara með henni Helgu Lottu vinkonu minni og samstarfsmanni til margra ára til Ameríku. Þar ætlum við að kynna okkur ýmislegt sem tengist leikskólamálum. Við fljúgum til Boston og þaðan áfram til Chicagó þar sem ráðstefnan er, þetta verður vonandi mjög fróðlegt og við komum örugglega heim með fullt af hugmyndum sem við getum nýtt okkur í starfi 😉 Um síðustu helgi fór svo stórfjölskyldan í sumarbústað í Skyggnisskóg, þ.e. við hjón, Edda, mamma og pabbi en ekki Kristján (sem var í vinnu) og Gummi (sem skrapp á sjóinn i veiðiferð). Mamma, pabbi og Þorvaldur fóru seinni part föstudags en við Edda lögðum í hann undir kvöld. Á leiðinni hrepptum við það ógeðslegasta veður sem ég hef upplifað á Íslandi. Það rigndi svo mikið að þurrkurnar höfðu ekki undan, liggur við eins og sturturigningin í Flórida í september og svo var svo mikið rok að við keyrðum nánast á 50 hálfa leiðina því skyggnið var ekki upp á marga fiska. Það hafði nú samt ekki nein áhrif á glannana sem þustu fram úr okkur þegar færi gafst, þeir hurfu út í veður og vind á 90 eða yfir. En þeir hafa nú samt komist á leiðarenda, því við sáum enga árekstra á leiðinni sem betur fer. Mér finnst að þessi glannar, það má taka fram að þeir voru allir á jeppum eða pickupum (ekki góð íslenska en hvað með það), mættu aðeins hugsa betur um að keyra eftir aðstæðum 🙁 En við komumst sem betur fer heil á leiðarenda og áttum yndislega daga í sumarbústað Starfsmannafélags Seltjarnarness. Við lágum í leti í pottinum eða bara í sófanum og gerðum sem minnst, samt var nú spilað, lesið og saumað út. Við grilluðum auðvitað og belgdum okkur út af mat og fíneríi alls konar 😉 Það gleymdist að hafa myndavélina góðu meðferðis svo að því miður verða engar myndasýningar að þessu sinni. Í síðustu viku fórum við mæðgur svo í mánaðarlegt update hjá Jóhönnu snyrtifræðing og svo fór frúin í yfirhalningu hjá henni Siddý í Permu. Ekki veitti af að hressa aðeins upp á háralitinn, því hann er aðeins farinn að breytast úr einhverjum nánast engum lit yfir í örlítið grátt 🙁 Já það bendir ýmislegt til þess að maður sé að eldast en maður lætur það nú ekki á sig fá, heldur fer bara að halda sig við markmiðin um að verða duglegri í ræktinni og borða hollari mat jeje… En núna er mál að fara að hressa aðeins upp á heimilið með því að taka aðeins til í skápunum áður en gubbast út úr þeim, þrífa híbýlinn og fá Þorvald kannski til að ryksjúga mesta rykið svo hægt sé að taka á móti fólki, erum alltaf heima eða þannig 😉 Þar til næst, sem verður vonandi ekki svo langt… verið hress, bless……

Viku síðar

Eins og elskuleg dóttir mín hefur minnt mig á þá hef ég ekki skrifað neitt í heila viku. Ég hef haft eitthvað meira að gera en vanalega eða kannski bara verið löt, hver veit 🙁 En margt hefur gerst á einni viku eins og ég ætla að tíunda hér í sem styðstu máli. Ég byrja nú bara á að segja frá ótrúlega skemmtilegu sem við mæðgur, þ.e. ég og mamma gerðum í gær. Við tvær og Rósý frænka mín og hennar dóttir Regína stóðum fyrir frænkumóti. Þetta byrjaði allt í sumar þegar mamma og Rósý fóru og hittu aðrar frænkur, við erum sem sagt afkomendur Björns og Jósefínu frá Gálutröð í Eyrarsveit. En við, þessar heljar kellur stóðum fyrir fyrsta stóra frænkumótinu í gær. Þar mættu 56 frænkur, frá fjórum systkinum afa Guðmundar og má það bara teljast gott í fyrstu atrennu. Edda mín komst ekki vegna veikinda en hún verður vonandi bara með næst. Ég fékk að kynnast frænkum sem ég hafði aldrei augum litið og öðrum sem ég hafði séð á hinum ýmsu stöðum en vissi ekki að væru skyldar mér. Meðfylgjandi eru myndir frá þessum viðburði, mynd af mömmu og Öggu (Rögnu) systur hennar og svo af fimm afkomendaleggjum. Það er afkomendur Guðmundar Skúla (afa míns), Guðrúnar Kristínar (Gunnu), Valgerðar (Völlu), Jónu Önnu sem var alltaf kölluð Anna og svo Ólafs Kristjóns 🙂

Mamma og AggaAfkomendur Guðmundar Skúla

Afkomendur Guðrúnar KristínarAfkomendur Ólafs Kristjóns

Afkomendur Jónu ÖnnuAfkomendur Valgerðar

Við hefðum ekki getað fengið betra veður því sólin skein í heiði, ég segi bara okkur til heiðurs. Ég ætla svo á morgun eða hinn að halda áfram að segja hvað gerðist meira í síðustu viku. Þar til þá ciao tutti 😉

Og tíminn líður

Er barasta ekki kominn nýr mánuður enn hvað tíminn líður ótrúlega hratt. Helgin búin og kominn mánudagur, mánudagurinn 1. október og Sólbrekka á afmæli í dag. Við héldum upp á daginn með foreldrakaffi í morgun, alltaf svo gaman þegar foreldrarnir koma og fá sér kaffi í morgunsárið. Á föstudaginn fórum við leikskólakennararnir á Nesinu og hittum kollega okkar í kraganum, það var ótrúlega skemmtilegt. Við byrjuðum á að fara á Álftanesið og skoða leikskólana þar og þiggja hjá þeim veitingar. Ótrúlega skemmtilegt að heimsækja þær, við öfundum þær af leikskólunum þeirra, aðeins meira pláss en hjá okkur 🙁 eitthvað fyrir skólanefndarfólk að athuga. Þess má geta að sonur minn elskulegur er einmitt í þeirri nefnd, svo ég byrjaði á því að skjóta að honum að fara og kíkja á Álftanesið 😉 þó ég ætli nú kannski ekki að fara blanda honum í þessa umræðu mína. Eftir að hafa skoðað og svona, fórum við með rútum í Mörkina í sal Ferðafélagsins og kíldum vömbina. En það skemmtilegasta við ferðina var að ég hitti margar gamlar/ungar skólasystur og við ákváðum að við þyrftum nú að fara að hittast fljótlega allur hópurinn sem var saman í þessi 4 ár í HA, alla vega þær sem voru á Reykjavíkursvæðinu. Vonandi verður úr því bara hið fyrsta 🙂 Helgin fór svo í þvotta og að jafna sig á tímamismuninum og ferðalaginu, langt síðan ég hef sofið svona mikið huhu… Við pöntuðum flugfar út í febrúar fyrir fjölskylduna, þannig að nú bíður maður bara þar til þá og getur farið að láta sig hlakka til eða þannig… 😉