Eftirminnilegur dagur

Í dag er hinn frægi 11. september sem varð frægur 2001 á eftirminnanlegan hátt. Þessi dagur er þó enn eftirminnanlegri í augum okkar hjóna því að fyrir 26 árum, já 26 árum þá giftum við okkur 🙂 Við höfum alltaf haft þau fögru fyrirheit að gera okkur glaðan dag þennan dag en það hefur gengið misjafnlega að láta þau standast. Í dag vorum við í vinnu eins og vanalega og eftir vinnu fórum við mæðgur í smá snyrtingu hjá henni Jóhönnu okkar í Garðabænum en að því loknu fórum við hjónin og dóttir okkar og fengum okkur í svanginn. Því miður voru Kristján og Gummi ekki með okkur en þeir koma kannski bara næst. Um næstu helgi er mikið að gerast hjá okkur við erum að fara á fyrstu árshátíð sem Seltjarnarnesbær heldur og er mikið tilhlakk í öllum af því tilefni. Á morgun verður háuhæladagur í Sólbrekku og ég og hún Arna samstarfsfélagi til margra ára verðum með borðsiðakennslu, við erum nefnilega svo góðar í þeim þ.e. siðunum eða þannig 😉 Svo á sunnudaginn verður hún Edda mín 22 ára og ætlar hún að vera með afmæliskaffi fyrir nánustu ættingja. Ég verð kannski aðeins duglegri með skrif á síðuna framvegis og set inn myndir, hef ekki alveg verið að standa mig í þessu undanfarið…