Siglingin hafin

Nú koma loksins fréttir af okkur 🙂 Við lentum í smá ævintýri, við þurfum alltaf að hafa smá spennu í hlutunum svona þegar við erum stödd í útlöndum. Við vorum að krúsa um internetið í leit að upplýsingum, þegar tölvan okkar gaf upp öndina. Við vorum þá stödd á hótelinu í Miami síðasta kvöldið fyrir siglinguna og gátum því ekkert bloggað eða haft samband heim nema þá bara að nota símann 🙁 Við fórum því um morguninn á siglingardaginn í Best Buy og þeir mældu fyrir okkur straumbreytinn, sem reyndist vera ónýtur. Við keyptum því nýjan og nú verður hægt að segja ykkur skemmtilegar ferðasögur 😉 Við erum núna stödd einhvern staðar út á ballarhafi, 17 mílur frá Kúbu var sagt í kallkerfið á skipinu rétt áðan og erum við á leið til Haiti en þar munum við fara í land á morgun. Það gekk vel að skila bílnum við flugvöllinn og þaðan tókum við rútu að höfninni á vegum bílaleigunnar. Það gekk líka afskaplega vel að tékka okkur inn á skipið og eftir að hafa fengið Sea Pass sem eru skilríki okkar hér á skipinu kíktum við á herbergin. Herbergi afmælisbarnsins er eins og svíta en okkar er aðeins minna 🙁 Við fórum að því loknu upp á Windjammer til að fá okkur eitthvað í gogginn. Í millitíðinni keyptum við okkur inn í gossamfélagið á skipinu og duttum bara í gosið…. Gærkveldið var fínt og við með útsýni yfir hafið á besta stað í skipinu vil ég fullyrða við kvöldverðarborðið. Það var flott að sitja og fylgjast með Miami fjarlægast okkur á meðan við borðuðum þriggja rétta máltíð. Í morgun vöknuðum við hjónin svo snemma og drifum okkur í ræktina, já í ræktina og hömuðust á hinum ýmsu tækjum og tólum. Síðan var farið í sturtu og svo í morgunmat, sem var að hollari taginu, við erum nefnilega hætt í Atkins kúrnum og komin í hollustuna. Eftir það skoðuðum við hluta af skipinu og ætlum að lokum að slappa af og sóla okkur á svölunum okkar 🙂 Þess má geta að í morgun var bankað upp á hjá afmælisbarninu og honum færður blómvöndur frá starfsfólki Danska Sendiráðsins (sjá mynd). Við höfðum stuttu áður mætt á staðinn og sungið fyrir hann afmælissönginn 😉

Afmælisbarnið

Key West að baki

Nú erum við komin til Cutler Ridge í úthverfi Miami og erum á Best Western hóteli. Við vorum ekki í sambandi við umheiminn í gær og því miður ekkert hægt að færa inn færslu á síðuna. En núna erum við með gott samband, því gamla „besta vestrið“ eins og sonur minn mundi sennilega kalla það stendur sig með prýði. Ferðin til Key West gekk vel en það var um langan veg að fara u.þ.b. 120 mílur frá Floridia City sem er síðasta borg áður en farið er niður á rifin og yfir 45 brýr á leiðinni. Útsýnið er mjög fallegt alla leiðina, fólk að veiða bæði frá landi og á bátum og svo fjölbreytt fuglalíf. Við komum til Key West um klukkan 17 og byrjuðum á að keyra hring um rifið áður en við tékkuðum okkur inn á hótelið eða reyndum en enduðum á glænýju hóteli hinum megin við götuna. Við fengum herbergi á sitt hvorri hæðinni en það spillti ekki fyrir, mjög nýtískulegt hótel meira segja með sængum 🙂 Eftir góðan nætursvefn héldum við niður í gamla hlutann og skoðuðum okkur um við höfnina og keyptum smá minjagripi m.a. þurrkaðan krókódílahaus, sem að börnin á Birkilundi fá að rannsaka þegar heim verður komið. Eftir tveggja tíma göngu keyrðum við um, skoðuðum hús Ernest Hemmingway og syðsta hluta Bandaríkjanna. Við héldum svo sömu leið til baka áfram yfir brýrnar 45 í átt að hótelinu. Morgundagurinn hefur ekki enn verið skipulagður en það er moll hinum megin við götuna sem hægt væri að kíkja í og svo er nú alltaf hægt að fara á krókódílaslóðir 😉 Hér á eftir koma svo nokkrar myndir sem við höfum tekið það sem af er ferðarinnar eða pínulítill hluti af þeim, njótið vel og heyrumst svo aftur á morgun með fleiri sögur úr henni Ameríku 😉

Á leið til Orlando Þreyttir ferðalangar

Furðulegt farartæki Edda og Tobbi á Key West

Furðuverur

Við sjö mílna brúna Tobbi og bíllinn