Við kvöddum Stan og Söruh um hádegið og héldum af stað til New York með viðkomu í Kingston. Við vissum að það væri maraþon í gangi og það yrði kannski seinkun í gangi en leiðin var tiltölulega greið og við komum á hótelið um kl. 16. Hér á eftir koma myndir frá Bean River Road og tréinu fallega sem hafði ekki losað sig við laufin ennþá og nokkrar frá leiðinni niður eftir. Njótið 😉
Enn einn góður dagur í Pine Plains
Í dag var pínulítill reisudagur, því við fórum í stærstu garnbúð USA en hún er í tveggja tíma fjarlægð frá Pine Plains. Hún er í Northampton og heitir Webs og það má segja að þetta sé himnaríki prjónakonunnar. Jeminn hvað það var til mikið af garni og erfitt að komast að því hvað ætti að kaupa. Þegar ég hafði verið að vafra um og ekki vita hvað ætti að skoða fyrst, kom afgreiðslumaður ekki kona og spurði hvort þetta væri fyrsta skiptið mitt í búðinni. Ég varð að játa að það væri svo og fór svo að velta fyrir mér hvers vegna hans sæi það en ég hef örugglega verið með munn og augu galopinn eða jafnvel að augun snérust í hringi í augntóftunum 😉 En eftir að hafa áttað mig og talað við afgreiðslumanninn sem skýrði út fyrir mér hvernig búðin virkaði gekk mikið betur. En ég var samt með valkvíða og fór í marga hringi áður en ég fann það sem ég vildi kaupa. Eftir að hafa eytt tíma í búðinni keyrðum við í miðbæinn og fengum okkur að borða. Þar fékk Stan skilaboð um hann væri orðinn afi en við höfðum beðið eftir þeim fréttum frá því í gær. Eftir matinn keyrðum við til Pitsfield því Sarah ætlaði að koma við í einni búð áður en við færum á safn sem heitir Hancock Shaker Village. Það er safn sem samanstendur af mörgum húsum og var áður heimili safnaðar sem kenndur er við Shaker. Það var frábært að sjá hve útsjónarsamt fólkið í söfnuðinum hefur verið og þau hönnuðu þvottavél, þó svo að það hafi verið fyrir daga rafmangsins eða um í kringum 1800. Við gengum milli húsanna og dáðumst af öllu því sem fyrir augun bar en það var farið að kólna mjög og rigna svo það var ágætt að halda heim eftir góðan dag. Um kvðldið fórum við svo niður í Pine Plains og borðuðum.
Við ákváðum líka að bóka tvær nætur á hóteli nálægt JFK og nota mánudaginn til að fara niður á Manhattan með lest og skoða okkur um. Á morgun keyrumþví áleiðis til New York og tékkum okkur inn á hótelið og klárum kannski viðskiptin sem eftir eru 😉
Halloween seinni hluti dagsins
Fyrri hluti dagsins var skemmtilegur en seinni hlutinn slóg þeim fyrri algjörlega út í skemmtilegheitum. Eftir að hafa hangið og spjallað skruppum við til Kingston, auðvitað til að sinna smá viðskiptum. Um fimmleytið var svo haldið niður í Pine Plains til að fylgjast með krökkunum hlaupa milli húsa og sníkja nammi. Trick or treat… heyrðist i hverju horni og jeminn hvað það var gaman að sjá alla búningana og krakkana brosa út að eyrum. Við fórum nú samt ekki og sníktum heldur héldum okkur í smá fjarlægð og mynduðum í gríð og erg. Við fórum svo og heimsóttum hjónin sem við hittum í morgun en þau búa í rosalega fallegu húsi sem minnir frekar á höll en hús. Húsfreyjan hafði sett fullt af hvítum pokum með kertum í , hún sat sjálf á veröndinni með nammi fyrir gesti og gangandi og það hljómaði draugatónlist frá húsinu. Okkur var boðið inn að kíkja á húsið og fengum að vita sögu þess og hvernig hafi verið gerðar breytingar á því. Eigendurnir höfðu nostrað við og fundið hluti sem hentuðu húsinu alveg frábærlega. Engar myndir voru teknar þar nema bara að utan en Stan kemur til með að mynda sögu hússins svo við fáum sennilega að njóta þegar fram líða stundir. Það voru glaðir einstaklingar sem héldu heim eftir frábæra upplifun dagsins. Á morgun er svo sett stefnan á stærstu garnverslun USA svo að það verður enn einn góði dagurinn. Endilega njótið myndanna sem á eftir koma 😉