Þriðji og síðasti dagur ráðstefnunnar

Við vöknuðum klukkan 6 eins og hina dagana því við þurftum að vera komnar fyrir 8 í ráðstefnuhúsið. Við erum um það bil 30 mínútur að keyra. Þegar við mættum á staðinn flýttum við okkur til að klára þríleikinn með Music Together og vorum sammála um að við hefðum fengið mikið út úr að mæta á alla þrjá, þeir byggðu hvorn annan einhvern vegin upp 😉  Næsti fyrirlestur var um jóga og var það eiginlega sísti fyrirlesturinn af öllum þó að maður græði alltaf á öllu sem maður hlustar á. Við fengum aðeins lengra hádegishlé, því að konan sem var með jógað hætti við að láta okkur gera stöður því við vorum svo mörg. Ég skil það nú ekki alveg því það er hægt að jóga hvar og hvenær sem er alveg sama hversu margir eru á sama stað. Síðasti fyrirlesturinn stóð algjörlega upp úr, mjög hress kona með mjög margar skemmtilegar hugmyndir og leiðir til að vinna með börnum. Hún lét okkur hafa fyrir hlutunum og sungum við og dönsuðum og gerðum alls kyns æfingar allar eða einar og var ég aðallega tekin fyrir 😉 Við förum í sýninguna í hádeginu og þar hitti Steina vini sína og fékk að taka mynd. Eftir fyrirlesturinn fórum við svo og keypti ég svona teygjuband sem hægt er að nota í vinnu með börnum. Þegar við vorum svo búnar með þennan pakka fórum við í Mall at Milenia og fengum okkur girnilegan mat á hinu fræga Cheesecake Factory. Við komum svo heim eftir langan dag þreyttar og sælar eftir skemmtilega ráðstefnu 😉


  
  
  
  
  
  

  

Annar dagur á ráðstefnunni

Það er nú margt skrítið í tilverunni, eins og að þeir tveir fyrirlestrar sem við völdum um hegðun barna voru annað hvort aflýstir eða það var svo fullt að ekki var pláss fyrir okkur. Þannig atvikaðist það að við fórum í nokkra tónlistarfyrirlestra. Þar af þrír þennan daginn og einn af þeim var hjá vinum okkar í Music Together. Þrátt fyrir að hafa farið á alla þessa fyrirlestra þá voru þeir eins ólíkir eins og þeir voru margir. Þó svo að þeir séu tónlistartengdir þá fjölluðu þeir um hvernig börn læra frá því þau koma úr móðurkviði og áfram út barnæskuna. Það skemmtilega við þessa fyrirlestra er þó að þátttaka er mikil, sungið og dansað og vorum við jafnvel teknar upp til að taka þátt með kennaranum. Við kíktum líka á sýninguna og sáum margt áhugavert og skemmtilegt og ýmsa öðruvísi karaktera. Eftir að hafa eytt mestum hluta dagsins í ráðstefnuhúsinu fórum við að kanna umhverfið og stunda pínu viðskipti 😉

   
    
    
 

Fyrsti dagur á ráðstefnunni

Við vöknuðum fyrir allar aldir eins og í gær svo við vorum alveg tilbúnar til brottfarar um kl. 7 😉 Við vorum mættar á fyrsta fyrirlesturinn kl 8 en því miður var honum aflýst. Við fundum bara annan í skyndi og fórum á tónlistarfyrirlestur hjá Music Together. Það eru samtök sem sjá um kennslu þar sem börn og foreldrar þeirra koma saman og syngja og hafa gaman saman. Við Helga Lotta endurnýjuðum kynnin við Ken því við hittum hann á NAEYC í Chicago 2007. Þetta var bara skemmtilegur fyrirlestur og skemmtum við okkur alveg ótrúlega vel. Eftir að hafa nært okkur og slappað af í smá stund var farið á næsta fyrirlestur sem fjallaði um stærðfræði og hvernig við tölum um hugtök tengt stærðfræðinni. Fyrirlesararnir voru nú alveg komnar á síðasta söludag en stóðu sko algjörlega fyrir sínu. Við hlustuðum á og skemmtum okkur konunglega yfir þessum öðlings konum sem voru sko með glærur sem hefðu sómað sér vel fyrir svona 10 árum en þær voru algjörlega fyrir sjónskerta ef ekki bara blinda 😉 Í seinni hluta fyrirlestrarins fenugm við svo að leika okkur með alls konar efnivið. Við þurftum að segja frá hvað við værum að gera og af hverju svo að það þurfti aðeins að leggja höfuðið í bleyti. Eftir að hafa eytt meiri hluta dagsins í ráðstefnuhúsinu fórum við og skoðuðum umhverfið og sinntum smá viðskiptum því að það þarf nú líka að gera öðru hverju. Það voru þreyttar og glaðar konur sem skriðu í rúmið eftir langan dag 🙂