Sundlaugarunaður eins og hann gerist bestur ;)

Hér koma myndir af sundlaugargarðinum okkar, við höfum eytt löngum stundum hér í letilíf og sólarsleikjur.  Nú er bara einn dagur í heimferð og við eigum eftir að sakna staðarins, sólarinnar og öllu sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Við eigum vonandi eftir að koma hingað aftur því að staðsetningin hentar okkur einstaklega vel. Þið áhangendur mínir fáið vonandi smá nasaþef af því sem við höfum notið og …….. voila 😉

                                                    

Downtown Kissimmee

Á föstudaginn fórum við í góðan göngutúr í miklum hita, þeim mesta sem við höfum upplifað, í downtown Kissimmee. Þar er hægt að ganga meðfram vatninu, fullt af göngustígum og alls konar bæði leiktæki og bekkir, eiginlega bara allt sem hægt er að hugsa sér. Þegar við gengum mættum við löggu sem að spurði okkur hvort við hefðum séð konu í grænni skyrtu og gallabuxum og léti skringilega…. nei við höfðum ekki mætt henni en við fórum ósjálfrátt að svipast um eftir einni slíkri. Ekki urðum við varir við hana frekar en löggan en hitt má hins vegar segja að það er fullt af skringilegu fólki hér í Ameríkunni eins og annars staðar ef út í það er farið 😉 Við eyddum dagsparti í þessu fallega umhverfi en snérum við vegna hita, allir orðnir vel sveittir og þá sérstaklega Róbert Ingi. Efir að við komum svo heim fórum við í sundlaugina til að kæla okkur og fá okkur smá í gogginn 😉

   

                                                 

Old Town Kissimmee

Eftir að hafa dúllað okkur fyrri hluta dagsins við að skypa heim og svona lögðum við af stað og ferðinni var heitið á Texas Roadhouse til að borða. Reyndist það hið besta steikhús og var brauðinu, smjörinu og hnetunum gerð góð skil áður en steikin kom á borðið. Eftir að hafa setið og snætt var haldið til Old Town Kissimmee. Þar röltum við um og nutum þess að skoða þar sem fyrir var, gamlar búðir og veitingastaðir, gamlir bílar og alls kyns tívolítæki mishættuleg. Ekki má gleyma the Dukes sem tróðu upp á svæðinu en það voru eldri skúnkar að syngja í karaókí og fullt af gömlu liði sem mætti með stólana sína til að njóta. Reyndist þetta hin besta skemmtun í alla staði og það varð alltaf meira og meira líf eftir að líða tók á daginn. Á eftir koma nokkrar myndir frá deginum svo það er um að gera að njóta vel 😉