Dagur 3 og 4 :)

Í gær eyddum við deginum í dekur eins og okkur er einum lagið. Sumir fóru í ræktina, aðrir í sólbað, sumir í bæði en Gróa Mjöll fór í krakkaklúbbinn fyrir hádegi en fór svona u.þ.b. 100 ferðir í rennibrautinni eftir hádegi. Um kvöldið fórum við og borðuðum að vanda hjá vinum okkar í matsalnum, þriggja rétta málsverð sem engan sveik. Eftir það var farið í miðjuna þar sem Gróa Mjöll dansaði fyrir okkur og alla hina sem sátu þar. Hún hefur heillað alla upp úr skónum og margir vita hvað hún heitir og jafnvel vita hvernig hún var klædd í gær. Hún blaðrar við alla á ensku og lætur ekkert stoppa sig. Hún hitti meira að segja jólasvein í sumarfríi og eru þau nú orðnir mestu mátar 🙂 Fóru allir glaðir í háttinn frekar snemma því að við áttum að mæta snemma á bryggjuna í Tortóla.

Í dag var fyrsta stoppið sem sagt Tortóla 😉 Við höfðum pantað okkur ferð upp í fjöllin til að ferðast á milli trjátoppa á þar til gerðri línu nánar tiltekið zipline. Við vorum sótt af rútu alls 16 manns og keyrðum við upp snarbrattar hlíðar á endastöð. Útsýnið var ægifagurt á leiðinni og ekki versnaði það þegar upp var komið. Allir voru græjaðir með hjálm og belti með alls kyns krókum og fíneríi. Farið var yfir öryggisatriði og við spurt hvort við hefðum einhverjar spurningar og það hafði Gróa Mjöll, spurði á ensku hvernig við eiginlega kæmumst upp til að renna okkur. Við vorum alveg hissa en mjög upp með okkur á þessari spurningu. Síðan var haldið á stað upp eftir tröppum og stígum að fyrsta áfangastað. Gummi fyrstur, svo Gróa Mjöll og við hin á eftir. Það kom okkur svo á óvart hvað sú litla var brött og engin eftirbátur hinna. Eftir að hafa farið á 7 mismunandi brautir var ferðin á enda. Við keyrðum til baka og sáum meira af Tortola m.a. hið fræga Mossack Fonseca sem var mikið í fréttum heima fyrr á árinu. Við sinntum smá viðskiptum því það átti að vera Caribbean þema um kvöldið og fengu Gummi og Þorvaldur sér skyrtur, voða flottir, við hinar vorum í kjólum 😉 Eftir kvöldmatinn sem var meiriháttar fórum við og kíktum á tunglið sem hefur ekki verið nær jörðinni síðan 1948. Var það hulið skýjum svo að við fórum á miðjuna því sú stutta vildi fá að dansa sem hún og gerði, alltaf að slá í gegn 😉 Áður en við fórum í káetu kíktum við aftur á tunglið sem var komið undan skýjunum og var bara fallegt 🙂 Á eftir koma hér nokkrar myndir frá síðustu dögum endilega njótið.

Fleiri myndir koma seinna svo verið spennt 😉

Serenade of the Seas 

Nú er annar dagur siglingarinnar og við orðin aðeins hagvanari þessu yndislega fleyi sem ber nafnið Serenade of the Seas 😉 Það gekk mjög vel að tékka sig inn á skipið eftir að hafa skilað bílnum og tekið rútu frá flugvellinum að höfninni. Þetta var allt mjög spennandi og það voru mjög spenntir einstaklingar sem gengu um borð um kl 14:30 í gær. Við kíktum inn á herbergin okkar og fórum síðan á öryggisæfingu sem allir þurfa að taka þátt í. Ef eitthvað kemur upp á eigum við að safnast saman í leikhúsinu. Gróa Mjöll fékk armband með upplýsingum á sem hún er með alla ferðina 🙂 Við kíktum á ýmsa hluti og fengum upplýsingar um allt sem við þurftum að vita um og bókunum okkur í kvöldmat. Kvöldmaturinn var þríréttaður og voru allir fínt klæddir og til fyrirmyndar. Í dag tóku ég og Gummi daginn snemma og fórum í ræktina og Gummi fór í jóga, hinir hvíldu sig á meðan. Eftir það var farið í Windjammer og morgunmatur borðaður, þar er allt til alls og maður veit stundum ekki hvað maður á að fá sér 😉 Við vorum búin að ákveða að reyna að sjá landsleikinn sem við og gerðum meðan Gróa Mjöll skemmti sér í sundlauginni og fór ótal ferðir í rennibrautinni. Í hálfleik fórum við svo aftur á Windjammer og þá í hádegismat, alltaf verið að borða hér 😉 Við kláruðum að horfa á leikinn hálf fúl yfir úrslitunum og héldum í klefa aðeins að jafna okkur og undirbúa okkur fyrir captain´s dinner sem er í kvöld. Þá er það jakkaföt og síður kjóll, bara skemmtilegt að hitta þjónana sem eru líka í sínu fínasta pússi í tilefni dagsins. Ég set hér inn nokkrar myndir sem ég er búin að taka en þarf að taka fleiri myndir á morgun, þar til þá sjáumst 😉

Nú er komið að því 😉

Ökuferðin til Fort Lauderdale gekk mjög vel, við ókum eftir Florida Turnpike sem kallast líka Ronald Reagan. Við tékkuðum okkur inn á Universal Palms hótel og endurröðuðum í töskur og settum það sem við þurfum að nota fyrst á skipinu í sér tösku 😘 Síðan kíktum við á sundlaugina sem er mjög flott en ísköld, sumir létu sig samt hafa það og syntu og busluðu 😉 Eftir góðan kvöldmat á Chili’s fóru sumir að sofa en aðrir kíktu á einhverja þætti 😍 Nú er komið að því að tékka sig út keyra og skoða Miami og svo er það bara Serenade of the Seas og ævintýrin ⚓️🚢🍸🌞