Þrátt fyrir fínu neglurnar var nú farið og hjólað. Það er ekki hægt að sleppa því að hjóla í svona yndislegu veðri. Þorvaldur var auðvitað fyrstur að vera tilbúin (sjá mynd) og þurfti að bíða eftir kvenpeningnum í fjölskyldunni. Við hjóluðum svo hringinn okkar á bara góðum tíma, með smá mótvind á Ægisíðunni. Jæja nú erum við mæðgur á leið í ræktina, mætti halda að það væri átak í gangi. Svona eru nú oft sumarfríin þá er tími til gera það sem ekki gefst alltaf tími til annars. Vegna óviðráðanlegra orsaka eða þannig var ekki farið í ræktina en ég skrapp í staðinn í sund. Það var yndislegt að synda í nærri 20° hita. Ég hitti Önnu Jónu samstarfskonu mína á Birkilundi í sundi en hún var að fara upp úr lauginni þegar ég var að fara ofan í. Einnig hitti ég Karin sendiherrafrú en hún er fastagestur í lauginni á Nesinu, alltaf gaman að hitta hana. Nú stefnum við mæðgur á að skreppa í eina búð en síðar á að sleikja sólina á Miðbrautinni. Nánar síðar. 😉
Nagladekur
Við mæðgur vorum að koma úr nagladekri, litun og plokkun frá Jóhönnu. Þvílíkur lúxus að fara og fá svona góða þjónustu. Mættum þrjár, ég, Edda og Björg í morgun og eyddum svo góðri stund hjá Jóhönnu eða svona fram eftir degi. Við fórum út glaðar og ánægðar með flottar neglur og snyrtar augabrúnir. Nú er bara um að gera að sitja, dást að nöglunum og æfa konunglega vinkið eða þannig. Spurning hvort að hægt verði að fara út að hjóla í kvöld! 🙂
Þriðji dagur í sumarfríi
Nú er þriðji dagur í sumarfríi að kveldi kominn. Góður dagur myndi ég segja, hér fyrir ofan eru myndir úr bíltúrnum okkar mæðgna á mánudaginn. Frúin stendur við nýja bílinn sinn, sem er nú búin að þjóna fjölskyldunni bara vel því Kristján átti hann á undan mér. Við mæðgur byrjuðum morguninn á að fara í ræktina en þangað hef ég nú ekki komið í u.þ.b. tvo mánuði. Fyrst fór ég í smá aðgerð og svo lenti ég í reiðhjólaslysi, sem ég hef verið að reyna að ná mér af. Tveir skrítnir, tognaðir og hálf óvirkir puttar en voru nothæfir í ræktinni. Eftir að hafa eytt einum og hálfum tíma þar tók hálfgert afslappelsi við, Edda er búin að ná sér í gamalt og gott íslenskt kvef og hnerrar eins og brjáluð manneskja eða þannig. Í kvöld fórum við hjónin svo í okkar venjulega hjólatúr og kom Edda með okkur. Alltaf jafn gaman að hjóla. 🙂
Við tíndum fyrstu tvö jarðaberin af uppskeru sumarins og skiptum þeim bróðurlega á milli heimilismanna (Gummi fékk ekkert því hann var ekki á staðnum). Það er mynd að uppskerunni fyrir neðan en vonandi verður nóg af berjum í „heila“ jarðaberjatertu þegar yfir líkur. En annars, þau brögðuðust guðdómlega.
Á morgun förum við mæðgur í nagladekur hjá Jóhönnu góðvinkonu okkar og ætlar Björg að koma með okkur, þetta verður bara gaman. 🙂