Í helgarlok

Jæja nú er komið að helgarlokum og okkur hefur tekist að klára það sem við ætluðum að klára um helgina. Æðislega skemmtilegt afmæli hjá Önnu Leu í Keflavíkinni, fullt af fólki og mikið skrafað og sungið. Næsta fimmtugsafmæli á morgun hjá henni Jóhönnu á Reynimelnum og vonandi sjá fleiri úr hópnum sér fært að mæta 😉 Enn hvað með það, við tókum til í geymslunni í dag og hentum alveg helling af drasli, ég hef sagt það áður og segi það enn – mikið óskaplega tekst manni að safna miklu af drasli. Þeir sem hafa séð okkar yndislegu geymslu vita að það er ekki hægt að safna miklu í hana og þó. Hún liggur undir tröppurnar að efri hæðunum og er hvergi hægt að rétta úr sér nema fyrir utan hana, svona skotgrafarhernaður. Enn kannski þess vegna er nú auðvelt að safna og troða miklu inn í hana, sem aftur á móti gerir það að verkum að erfitt er að nálgast hlutina sem maður ætlar að nota í það og það skiptið. Í geymslunni eru m.a. 400 og eitthvað hljómplötur sem eru núna aðgengilegar ásamt fleiru verðmæti. Það er gott að hafa auðvelt aðgengi að plötunum, því hann Þorvaldur pantaði sér plötuspilara frá Ameríkunni um daginn. Plötuspilarinn er nefnilega þannig úr garði gerður að hægt er að tengja hann við tölvu, svo að allar gömlu plöturnar verða bráðum á tölvutæku formi. Nýtt hobbí fyrir minn elskulega eiginmann, alltaf gott að hafa nóg að gera eða þannig. Ég nýt nú góðs af þessu öllu saman, fæ kannski bara fleiri lög í ipodinn minn 🙂 Í dag var þáttur hjá Opruh um fólk sem býr mjög smátt, ein kona bjó í 25 fm og par með lítið barn í 26 fm og var bara hamingjusamt í þessum þrengslum. Ég hugsaði með mér þegar ég horfði á þennan þátt, að ef ég byggi í svona litlu rými þá myndi ég pottþétt ekki safna drasli og væri kannski bara enn hamingjusamari eða hvað. Ég er mjög glöð og hamingjusöm með mína 100 fm og erum við ekkert á leiðinni að fara héðan, þó svo að það væri gott að vera með aðgengilegri geymslu 😉 Enn „heima er best“ og er ég mjög sammála því orðatiltæki, enda eyði ég miklum tíma hér heima og finnst hvergi betra að vera. Nóg með það nú hefst ný vinnuvika með nýjum tækifærum, styttist í ferðina okkar júhúu (var ég ekki að enda við að segja að heima væri best, gamla orðin tvísaga). Verð vonandi mjög dugleg að færa inn færslur en þangað til næst, verið í stuði með guði 🙂

Fimmtudagur ó fimmtudagur

Og það er bara kominn fimmtudagur, vikan er ekkert smá fljót að líða, sem er í sjálfu sér bara ágætt 😉 Búið að vera bara gaman í vinnunni en þannig á það auðvitað að vera. Ég hef ekki verið neitt sérlega dugleg að skrifa færslur þessa viku en það hefur allt verið við það sama svo það kemur ekki að sök. Ræktarkortið hefur alveg haft hvíld í æfingatöskunni en það stendur nú allt til bóta að fara renna því í gegnum lesarann í Þrekhúsinu. Ég fór þó og hljóp hring með Kristjáni á mánudaginn, eða hann hljóp smá spöl með mér og gafst svo upp á mömmu því hún fer eitthvað hægar yfir 🙁 En svona er nú þetta með þetta gamla lið, það hægist á því með aldrinum (hef nú ekki verið sérstaklega spretthörð um dagana, svo að það er nú ekki hægt að ætlast til mikils). Þorvaldur er kominn í helgarfrí, ætlunin er að taka til í geymslunni um helgina, vonandi tekst okkur það. Við erum að fara í afmæli til Önnu Leu í Keflavíkinni á laugardaginn, það verður bara gaman að hitta þá skólafélaga Þorvaldar úr ÍKÍ sem sjá sér fært að mæta. Segi nánar frá því síðar 😉

Eftir helgina

Nú er enn ein helgin liðin en ég hef nú verið ótrúlega dugleg þessa helgi. Ég þreif allt hátt og lágt í dag og henti drasli, það er alveg ótrúlegt hversu miklu manni tekst að safna svona dags daglega. Í gær fórum við Þorvaldur í afmæli til Kela frænda og hittum við þar helling af fjölskyldumeðlimum, það er alltaf jafn gaman að hitta fjölskylduna. Mamma og pabbi komu svo í heimsókn í gærkveldi og bakaði Þorvaldur vöfflur handa liðinu og ég þeytti rjóma og svo voru jarðaber og bláber með herlegheitunum. Maður var s.s. saddur og sæll þegar maður fór í rúmið í gærkvöldi, sæll því við horfðum á Mr. Bean en hvað það er mikil vitleysa. Edda eyddi helginni heima í föðurhúsum, því að Gummi var að traktorast eitthvað á Sauðarkróki. Hún var að lesa fyrir próf en fór heim í gær til að taka til heima hjá sér og Gumma. Ég fór svo með henni heim í dag, til að taka út verkið, þegar við vorum í les og tiltektarpásu, bara skrambi gott hjá henni enda vel upp alin haha… Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni eða þannig. Enn nú er komið að kveldi og vinnan kallar enn og aftur í fyrramálið. Það er tæpur mánuður í ferðina frægu, ég verð að fara að hætta að telja svona niður 😉 Ég er að hugsa um að leggjast undir feld og lesa bara smá. Þangað til næst… 🙂