Síðasta færsla af skipinu

Nú höfum við lokið við síðustu kvöldmáltíðina hér á skipinu og afhent þjónunum okkar þeim Ted, Cristinu og Josep þjónustugjöldin þeirra. Þau hafa séð ótrúlega vel um okkur, við virðumst alltaf vera með góða þjóna í þessum ferðum okkar. Hún Stacey herbergisþernan okkar var líka kvödd með virtum og hún sagði að við værum bara snyrtileg 😉 Í fyrramálið þurfum við að losa herbergið fyrir 8 og förum við svo bara á Windjammer í morgunmat og bíðum svo eftir að vera kölluð upp. Við erum með bláa miða sem þýðir að við verðum kölluð upp u.þ.b. kl. 9:30. Eftir það er svo bara að endurheimta farangurinn sem við afhentum í kvöld og svo leitum við bara að rútu frá bílaleigunni sem keyrir okkur á leiguna þar sem við fáum nýjan kagga og þá er okkur ekkert að vanbúnaði en að hefja ný ævintýri. Svo koma gormarnir okkar út á mánudaginn og þá verða nú gleðifundir 🙂 Þar til næst og þá á landi, góðar stundir…

Kvöldið í kvöld :)

Nú er þessi dagur að kveldi kominn og við höfum notið okkar vel í dag. Í kvöld eftir matinn fórum við í leikhúsið til að sjá töframann, Phillip Kaiser og sá var að betra taginu. Maður skilur ekki alveg hvernig hægt er að láta fólk hanga í lausu lofti, hvað þá að það hverfi hreinlega alveg og jafnvel einhver annar komi í stað þess. Ja við urðum eiginlega orðlaus yfir þessu en við erum auðvitað ekki galdramenn 😉 Á morgun látum við okkur bara líða vel, förum í ræktina og skoðum þá hluta skipsins sem við höfum ekki kannað ennþá. Hér á eftir eru nokkrar myndir svona til gamans og eru þær af alls kyns furðuverum 🙂

Fyrir framan Freedom Yngra settið

Nærbuxnabloggari nr. 2 Þvílíkar furðuverur

Gróa Sombrero Á milli tveggja risa

Cozumel Mexico

Nú höfum við stigið um borð í síðasta skipti og misstum því ekki af bátnum þannig að við ættum að komast heilu og höldnu til Miami á sunnudagsmorgunin. Við fórum á sýningu hjá innfæddum í dag, ótrúlega skemmtileg skrautsýning með tónlist og mexikóskum búningum. Pabbi var tekinn upp til að dansa við eina senjórítuna í sýningunni og stóð hann sig með stakri príði. Eftir sýninguna skoðuðum við mexikóska minjagripi og mín keypti sér poncho og sombreró, setjum kannski myndir af því við tækifæri. Á morgun verðum við bara á sjó og ferðin styttist óðum.