Old Town Kissimmee

Eftir að hafa dúllað okkur fyrri hluta dagsins við að skypa heim og svona lögðum við af stað og ferðinni var heitið á Texas Roadhouse til að borða. Reyndist það hið besta steikhús og var brauðinu, smjörinu og hnetunum gerð góð skil áður en steikin kom á borðið. Eftir að hafa setið og snætt var haldið til Old Town Kissimmee. Þar röltum við um og nutum þess að skoða þar sem fyrir var, gamlar búðir og veitingastaðir, gamlir bílar og alls kyns tívolítæki mishættuleg. Ekki má gleyma the Dukes sem tróðu upp á svæðinu en það voru eldri skúnkar að syngja í karaókí og fullt af gömlu liði sem mætti með stólana sína til að njóta. Reyndist þetta hin besta skemmtun í alla staði og það varð alltaf meira og meira líf eftir að líða tók á daginn. Á eftir koma nokkrar myndir frá deginum svo það er um að gera að njóta vel 😉





Það er Disney dagur í dag

Við vöknuðum snemma því við vildum vera komin snemma í Downtown Disney þennan daginn. Við lögðum bílnum í  bílastæðahúsinu sem er alveg glænýtt, var ekki einu sinni í myndinni síðast þegar við vorum þarna síðast (2 ár). Síðan örkuðum við af stað með hinum túristunum, aðallega kanadabúum fannst okkur og nokkrum sem héldu upp á St. Patrick´s dag. Fyrsta sem blasti við okkur var risa loftbelgur og ákváðum við að það væri nú eitthvað fyrir okkur að fara í. Við keyptum miða og biðum smá eftir að vera húrrað af stað heillangt upp í loftið (300 fet). Þetta flug varði í um 10 mínútur og er ekki hægt að segja annað en það hafi verið æðislegt útsýni. Eftir að hafa gengið um og sinnt smá viðskiptum yfirgáfum við svæðið. Við vorum hálf vonsvikin yfir því að geta ekki orðið við óskum Gróu Mjallar um að kaupa fyrir hana Pete the Cat úr Mickey´s clubhouse​, því að Disney selur ekki Pete bangsa en aftur á móti ýmsar aðrar fígúrur eins og Chip og Dale. Fannst okkur þetta vera mikil mismunum en eins og allir vita fer Pete ekki alveg eftir reglunum alltaf og rekst oft á. Því væri ágætt að hann hefði verið til eins og hinar fígúrurnar til að sýna að allir eru jafnir eins og Disney gjarnan hefur í fyrirrúmi 😉 Gaman að þessu. Við vorum frekar svöng eftir þennan leiðangur í hita og sól svo við skelltum í okkur bita og héldum síðan í Disney minigolf en ekki hvað, ekki svíkja lit þó svo að við værum ekki alveg sátt við meðferðina á Pete greyinu hahaha. Við fórum 18 holur og reyndist þetta hin besta skemmtun og var Róbert Ingi hrókur alls fagnaðar þó svo að hann hafi gefið skít í 13. holu. Hver hefur prófað að fá hreina bleyju á 13. holu? Róbert Ingi 🙂 Við komum svo við á Stake´n´shake og fengum okkur einn kaldan sjeik í tilefni dagsins. Það náðu allir heimilismenn því að fara skrefin sín í dag þó sumir værum með æfingar til að klára. Þess má geta að nú eru 3 að keppa um flestu skrefin og hver fer oftar upp á efri hæðina 😉

Í dag erum við að spá í að kíkja a Old Town Kissimmee og guð veit hvernig þessi dagur endar…… nánar síðar 🙂

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Góðir dagar í Terra Verde

Við erum bara búin að hafa það gott í göngutúrum, ræktarferðum, áti, drykkju og smá viðskiptaferðum. Hér er gott að vera hægt að gera ýmislegt eða ekkert ef því er að skipta, fara í sund eða liggja bara í heita pottinum 😉 Hér koma nokkra myndir svona bara til gamans 🙂