Orlando we are here ;)

Jæja þá erum við komin til Orlando og inn á Red Lion hótelið við Irlo Bronson. Flugið gekk mjög vel fyrir manninn með nýja hnéið og konuna með slæmu mjöðmina. Rúmlega 7 tímar sem notaðir voru til að sofa, horfa á myndir og þætti og hlusta á sögu. Eftir að hafa eytt ótrúlega litlum tíma í að fara í gegnum immigration, þar sem sami maðurinn afgreiddi mig í nóvember en tilviljanirnar eru oft svo skemmtilegar, fórum við að ná í farangurinn. Eitthvað gekk það nú seint fyrir sig og vorum við farin að halda að töskurnar hefðu nú bara verið skildar eftir en þar sem að margir biðu eftir töskum vorum við ekki farin að örvænta 😉 Síðan var bara farið beint í að sækja bíl hjá Alamo en við fengum hvítan Ford Escape, skrítið hvað við erum alltaf á hvítum bílum hér í USA 🙂 Keyrðum við sem leið lá eftir 528 inn á I4 út að 192 w Irlo Bronson og inn á hótel. Klukkan var þá orðin ansi margt að hérlendum tíma og fengum við okkur að borða eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið. Núna erum við bara að horfa á imbann og liggja á netinu áður en við höllum okkur eftir langan dag. Nokkrar myndir fylgja að sjálfsögðu, myndir af farartækjunum okkar þennan daginn 😉

   
    
 

Nú erum við enn á faraldsfæti

Nú sitjum við hér eina ferðina enn á uppáhalds staðnum okkar hér á Keflavíkurflugvelli eða Saga Loungið 😉 Nú liggur fyrir 7 tíma og 40 mínútna flug og við komum til með að lenda á MCO í Orlando um kvöldmatarleitið á þarlendum tíma. Svo er það bara frí næstu rúmu tvær vikurnar og áhugasamir geta fylgst með ævintýrum okkar hér á blogginu. Hér koma fyrstu myndirnar úr ferðinni 🙂 

    
 

Laugardagurinn 21. nóvember

Laugardagurinn rann upp tiltölulega bjartur og fagur og við fengum að sofa aðeins lengur en vanalega. Við Silla byrjuðum á að kíkja á ræktina sem er með þeim betri í svona sumarhúsahverfum. Eftir að hafa farið í sundlaugina og slappað af héldum við af stað í smá könnunarleiðangur. Við byrjuðum á að fara í Downtown Disney sem núna heitir Disney Springs. Það var heitt í veðri en skýjað og búið var að spá skúrum en við sluppum alveg við þær. Gaman var að kíkja á allt í Disney og sáum við danssýningu frá krökkum sem komum frá Texas. Við fengum okkur að borða og sátum í hitanum og virtum fyrir okkur mannfjöldan og fylgdumst með íkorna sem nartaði í mylsnur sem duttu af borðunum. Eftir að hafa eytt nokkrum stundum í Disney Springs fórum við í Old Town Kissimmee og kíktum á gömlu götuna og gamla liðið sem eyðir sínum stundum þar. Við fengum okkur ís og kíktum í búðirnar sem eru smávegis öðruvísi en annars staðar. Við komum heim sáttar og sælar með daginn og smelltum okkur í sundlaugina með fínu baðhetturnar okkar. Nú erum við búnar að fá okkur yndislega drykki, ræða málin og hlægja mikið 😉