Frá Perryville til St. Louis til Clarksville

Eftir morgunmat og frágang á farangri héldum við af stað til St. Louis. Við keyrðum sem leið lá alla leið til St. Louis og inn að Gateway Arch. Við fundum bílahús fljótlega og gengum niður að Mississippi að boganum fræga en sáum fljótlega að það var verið að grafa upp og lagfæra umhvefið. Við höfðum ætlað að fara upp í bogann og virða fyrir okkur útsýnið þaðan en nei allt var lokað vegna viðgerða….. leiðinlegt fyrir okkur. Í stað þess að fara upp skoðuðum við umhverfið og tókum myndir en gengum síðan upp að gamla dómshúsinu. Við fórum inn og skoðuðum húsið sem er mjög fallegt og einnig horfðum við á heimildarmynd um gerð bogans sem var reistur á árunum 1963-65. Þetta hefur verið ótrúlegt afrek og menn unnu þarna í ótrúlegri hæð án alls öryggisbúnaðar. Það kom fram að engin hafi látið lífið við bygginguna og nánast allt gengið að óskum. Ótrúlegt að sjá hvernig armarnir byggðust upp jafnt sinn hvorum megin og voru svo sameinaðir í miðjunni…… sannkallað listaverk og byggingarundur 😉 Við gengum um nágrennið og ákváðum svo að fara hringferð með trolley rútu sem að tók um klukkutíma. Við sáum hvernig borgin er og við undruðumst hversu lítil umferð er á svæðinu. Við keyrðum svo frá St. Louis nokkuð sátt en frekar óánægð með að komast ekki upp í bogann en það býður bara betri tíma 🙂 Nú tók við akstur í átt að Nashville þar sem við ætlum okkur að vera á morgun. Við keyrðum yfir til Illinois áfram í gegnum Illinois til Kentucky en fengum okkur ekki Kentucky hahaha og erum nú í Clarksville Tennessee þar sem við eyðum nóttinni á Quality Inn 😉

   
    
    
    
   

Jackson til Memphis til Perryville ;)

Jæja fleiri sögur af fylkjaflökkurunum 🙂 Við yfirgáfum Quality Inn í Jackson um kl. 9 fengum okkur í svanginn og lögðum í hann. Við keyrðum eftir I-55 upp til Memphis og vorum mætt fyrir utan Graceland um hádegi. Við kíktum aðeins á umhverfið en fórum ekki inn í húsið sjálft heldur virtum það fyrir okkur aðeins úr fjarlægð. Eftir það keyrðum við að Bass Pro Shop pýramítanum, fórum inn og með lyftu upp á topp. Þar virtum við fyrir okkur útsýnið og tókum nokkrar myndir áður en við fórum niður aftur. Við sinntum líka smá viðskiptum eins og við erum vön 😉 Við keyrðum síðan um miðbæinn og kíktum á hann sáum m.a. Peabody hótelið sem er frægt fyrir endurnar sínar og Lorraine mótelið þar sem Martin Lúter King var myrtur forðum. Að þessu loknu var garmurinn stilltur á St. Louis og keyrt af stað. Eftir klukkutíma akstur eða svo var ökumaðurinn tekinn í landhelgi, blá blikkljós og alles. Það hlaut að koma að þessu kannski en hann slapp með aðvörun enda ekki á miklum hraða miðað við umferðina sem við höfðum fylgt. En svona er þetta og við reynslunni ríkari og höfum hitt state trooper frá Arkansas 🙂 Eftir var keyrt aðeins hægar og alla leið til Perryville þar sem við fengum inni í Comfort Inn. Við erum búin að kíkja í Walmart og borða á lélegasta kínastað norðan alpafjalla 😉

Frá því að við yfirgáfum Flórída höfum við farið í gegnum Alabama, Louisiana, Mississippi, Tennessee, Arkansas og Missouri. Við eigum svo eftir að fara í gegnum Kentucky, Tennessee og Georgia á leiðinni aftur til Florida 😉