Dagur 1 í Orlando

Við vöknuðum tiltölulega snemma enda enn pínu á íslenskum tíma. Eftir að hafa tékkað á ýmsu á internetinu, reynt að hringja til Noregs og skypað heim héldum við á stað í viðskiptaferð. Við þurftum að sinna smá viðskiptum áður en lengra er haldið í ferðinni og fórum í Walmart, Florida Mall og Target svo eitthvað sé nefnt. Það stóð til að fara í heimsókn til Beggu vinkonu okkar sem er hérna núna og við brunuðum til hennar þegar viðskiptunum var lokið. Hún er í Ventura stórt og fallegt hverfi og gekk okkur ágætlega að komast á leiðarenda. Þar áttum við yndislega stund með henni og mömmu hennar, mikið skrafað, hlegið, etið og drukkið 😉 Við kvöddum þær mæðgur þegar líða fór á kvöld eftir mjög skemmtilega heimsókn og ætlum við að hitta þær þegar við komum úr keyrsluferðinni okkar. Þegar heim var komið gengum við frá eftir viðskipti dagsins, fengum okkur að borða (alltaf verið að borða og hentum okkur í svefn eftir eftirminnanlegan dag. Neðar í færslunni eru svo myndir af þessum fjallmyndarlega og unga fólki sem að hló og skemmti sér saman 🙂

í dag er svo stefnan tekin á Panama City þar sem við ætlum að kíkja á Guðrúnu Huldu frænku mína og fjölskyldu. Nánar síðar 😉

   
    
 

Orlando we are here ;)

Jæja þá erum við komin til Orlando og inn á Red Lion hótelið við Irlo Bronson. Flugið gekk mjög vel fyrir manninn með nýja hnéið og konuna með slæmu mjöðmina. Rúmlega 7 tímar sem notaðir voru til að sofa, horfa á myndir og þætti og hlusta á sögu. Eftir að hafa eytt ótrúlega litlum tíma í að fara í gegnum immigration, þar sem sami maðurinn afgreiddi mig í nóvember en tilviljanirnar eru oft svo skemmtilegar, fórum við að ná í farangurinn. Eitthvað gekk það nú seint fyrir sig og vorum við farin að halda að töskurnar hefðu nú bara verið skildar eftir en þar sem að margir biðu eftir töskum vorum við ekki farin að örvænta 😉 Síðan var bara farið beint í að sækja bíl hjá Alamo en við fengum hvítan Ford Escape, skrítið hvað við erum alltaf á hvítum bílum hér í USA 🙂 Keyrðum við sem leið lá eftir 528 inn á I4 út að 192 w Irlo Bronson og inn á hótel. Klukkan var þá orðin ansi margt að hérlendum tíma og fengum við okkur að borða eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið. Núna erum við bara að horfa á imbann og liggja á netinu áður en við höllum okkur eftir langan dag. Nokkrar myndir fylgja að sjálfsögðu, myndir af farartækjunum okkar þennan daginn 😉

   
    
 

Nú erum við enn á faraldsfæti

Nú sitjum við hér eina ferðina enn á uppáhalds staðnum okkar hér á Keflavíkurflugvelli eða Saga Loungið 😉 Nú liggur fyrir 7 tíma og 40 mínútna flug og við komum til með að lenda á MCO í Orlando um kvöldmatarleitið á þarlendum tíma. Svo er það bara frí næstu rúmu tvær vikurnar og áhugasamir geta fylgst með ævintýrum okkar hér á blogginu. Hér koma fyrstu myndirnar úr ferðinni 🙂