Key West að baki

Nú erum við komin til Cutler Ridge í úthverfi Miami og erum á Best Western hóteli. Við vorum ekki í sambandi við umheiminn í gær og því miður ekkert hægt að færa inn færslu á síðuna. En núna erum við með gott samband, því gamla „besta vestrið“ eins og sonur minn mundi sennilega kalla það stendur sig með prýði. Ferðin til Key West gekk vel en það var um langan veg að fara u.þ.b. 120 mílur frá Floridia City sem er síðasta borg áður en farið er niður á rifin og yfir 45 brýr á leiðinni. Útsýnið er mjög fallegt alla leiðina, fólk að veiða bæði frá landi og á bátum og svo fjölbreytt fuglalíf. Við komum til Key West um klukkan 17 og byrjuðum á að keyra hring um rifið áður en við tékkuðum okkur inn á hótelið eða reyndum en enduðum á glænýju hóteli hinum megin við götuna. Við fengum herbergi á sitt hvorri hæðinni en það spillti ekki fyrir, mjög nýtískulegt hótel meira segja með sængum 🙂 Eftir góðan nætursvefn héldum við niður í gamla hlutann og skoðuðum okkur um við höfnina og keyptum smá minjagripi m.a. þurrkaðan krókódílahaus, sem að börnin á Birkilundi fá að rannsaka þegar heim verður komið. Eftir tveggja tíma göngu keyrðum við um, skoðuðum hús Ernest Hemmingway og syðsta hluta Bandaríkjanna. Við héldum svo sömu leið til baka áfram yfir brýrnar 45 í átt að hótelinu. Morgundagurinn hefur ekki enn verið skipulagður en það er moll hinum megin við götuna sem hægt væri að kíkja í og svo er nú alltaf hægt að fara á krókódílaslóðir 😉 Hér á eftir koma svo nokkrar myndir sem við höfum tekið það sem af er ferðarinnar eða pínulítill hluti af þeim, njótið vel og heyrumst svo aftur á morgun með fleiri sögur úr henni Ameríku 😉

Á leið til Orlando Þreyttir ferðalangar

Furðulegt farartæki Edda og Tobbi á Key West

Furðuverur

Við sjö mílna brúna Tobbi og bíllinn

Á leið til Key west

Nú erum við vöknuð eftir góðan nætursvefn og erum að gera okkur klára til að keyra til Key West. Við höfum verið í frekar lélegu internet sambandi svo að það hafa ekki verið settar neinar myndir á síðuna en það lagast vonandi í kvöld. En þar til þá see you…. 😉

Komin til Orlando

Jæja nú erum við komin til Orlando eftir tæplega 8 tíma flug eða það var í gærkvöldi. Klukkan er nú 7 um morgun að staðartíma og við vöknuð að vanda enda er klukkan nú 12 heima, það var s.s. sofið frameftir 😉 Okkur gekk nú bara vel að fara gegnum tollinn enda sótt af flugvallarstarfsmanni sem kom með hjólastól fyrir mömmu, því að hennar stóll fór með farangrinum. Eftir að hafa fengið farangurinn fórum við og sóttum bílinn sem er 7 manna glænýr Dodge, við völdum rauðan því að maður týnir honum síður á bílastæðunum við búðarkjarnana. Auðvitað sinnum við einhverjum viðskiptum hér í Ameríkunni, þurfum að kaupa sitt af hverju fyrir siglinguna miklu. Nú stendur til að fara einmitt að sinna viðskiptum, þegar við erum klædd og komin á ról og svo er dagurinn óráðin eftir það. Við verðum í sambandi seinna 🙂