Ég er komin í fríið

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið….. sjaldan hefur þetta stef hljómað jafn mikið í höfðinu á mér en undanfarið. Nú er komið að því að ég er farin í sumarfrí, á morgun um kl. 10:30 fljúgum við hjónin á vit ævintýranna í Nýju Jórvík. Við lendum þar um 12:30 að staðartíma á hinum fræga degi þarlendra 4th of July og munum að sjálfsögðu taka þátt í hátíðarhöldunum, við erum svo mikið fyrir það 😉 Svo verður eitthvað skemmtilegt á dagskránni hjá okkur, sérstaklega á sunnudaginn þann 06.07.08 er sú gamla verður 45. Við höfum svo planað eftir að hafa verið rúma 4 daga í NY að keyra til Boston og svo áfram að heimsækja þá sem við þekkjum á þessu svæði áður en heim er haldið þann 11. Að sjálfsgögðu verður hægt að fylgjast með ferðum okkar hjóna hér á síðunni og vonandi að það verði alveg fullt af myndum sem hægt verður að berja augum. Ég er að gera tilraun með myndainnsetningu núna og set inn 2 myndir aðra af krabba sem er nú mitt stjörnumerki og hin er af íslenskum landnámshænum sem urðu á vegi mínum um daginn. Reyndar eru báðar myndirnar teknar á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði en við fórum þangað með leikskólabörnum í byrjun júní. Ekki meira í bili, heyrumst næst úr Bússlýðveldinu (ég og George eigum sama afmælisdag… jey) 🙂

Krabbatetur

Landnámshænur

Lati bloggarinn

Það má eiginlega segja að ég sé svona í latari kantinum á ritun á þessa síðu þessa dagana, virðist hafa einhverjum öðrum hnöppum að hneppa 🙁 Svo er maður líka smavegis á feisbúkkinu vá hvað maður getur nú annars eytt tímanum í þeirri vitleysu en hún er skemmtileg þó. En að öðru, við mæðgur drifum okkur strax eftir vinnu í dag á völlinn og sáum kvennalandsliðið okkar (köllum þær okkar þegar vel gengur) baka Grikkina 7-0. Hún Fríða frænka hans Gumma var með þrennu og mikið rosalega stóð hún sig vel í leiknum, best að mínu mati, Katrín Ómars setti líka eitt en þær spila báðar með KR 😉 Þetta var alveg frábær skemmtun og allir skemmtu sér vel og hvöttu, klöppuðu og öskruðu þegar mörkin komu, langt síðan ég hef skemmt mér svona vel yfir fússanum. Nú styttist í ferðina okkar hjóna rétt um vika, svo veit maður aldrei hvort einhver seinkun verður á fluginu vegna verkfallsaðgerða flugumferðastjóra. Ég ætla ekki að pirra mig yfir því núna, þetta kemur allt í ljós en b.t.w eru þeir ekki með nógu góð laun? Ég get stundum orðið svolítið reið svo vægt sé til orða tekið þegar farið er út í svona aðgerðir eins og þeir eru að fara en hugsa svo með mér að þetta sé kannski bara málið að fara í verkfall til að fá launaúrbætur. Við leikskólakennarar höfum nú ekki mikið notað þetta vopn enda held ég að við myndum að öllum líkindum jafnvel lama þjóðfélagið en kannski mundu það skila einhverju hver veit. Ég ætla ekki að halda áfram með þessa umræðu núna… 🙂 Sem sagt rétt vika í NY og ég er farin að hlakka pínu til að fara út og svo er maður komin í smá frí að því loknu. Þar til næst auf wiedersehen

Áfram Holland!!!!!

Ég verð að bæta aðeins við síðustu færslu, því þegar ég hafði lokað blogsíðukerfinu uppgötvaði ég að ég hafði gleymt að minnast á uppáhaldsliðið mitt. Já gamla heldur með og hefur haldið með landsliði Hollands í gegnum árin og eru mínir menn sko að gera það gott þessa dagana. Ég er sannfærð um það að þeir eigi eftir að vinna EM þetta árið, tek bara secret á þetta. Kristján Ítalía hvað… Meira var það ekki í bili erum að drífa okkur hjónin í púlið núna….. Sjáumst 😉