Enn einn frábær dagur

Jæja ég held bara mínu striki í jákvæðninni og segi frá enn einum góðum degi. Vaknaði kannski ekki alveg snemma og þó og tók stóra Neshringinn. Ég gekk og hljóp nokkra spretti inn á milli, kom við á Mánabrekku til að heilsa upp á liðið. Fyrsti dagur eftir sumarfrí og var verið að ganga frá og undirbúa komu barnanna, sem mættu kl. 13. Ég ræddi við mínar fyrrverandi samstarfskonur um hitt og þetta, heilsaði upp á Eddu og hélt svo áfram við að klára hringinn minn. Eftir hádegi hitti ég svo hana Laufeyju vinkonu mína og fórum við saman niður í bæ. Við röltum Laugaveginn í góða veðrinu, kíktum í búðir og á mannlífið. Við fórum inn á Vor og fengum okkur brúsettu (ekki skrifað svona) með kjúkling og salati, sem bragðaðist alveg guðdómlega… Svo fengum við okkur smá sætt á eftir. Við komum við í Mál og Menningu og ég keypti tvær bækur, svona til að lesa í restinni af sumarfríinu. Þegar við komum út á Laugaveginn aftur var farið að rigna okkur að óvörum en við vissum fyrir víst að það hefði rignt í Kópavoginum rétt áður. Það er auðvitað alltaf betra veður í vesturhluta Stór-Reykjavíkursvæðisins, vil ég meina, því kom þetta örlítið á óvart eða þannig. En af því farið var að rigna ákváðum við að halda heim. Við komum aðeins við á Miðbrautinni áður en ég keyrði Laufeyju heim. Það er alltaf gaman að hittast svona og fara eitthvað skemmtilegt, þannig að við ákváðum að vera duglegri við þetta. Takk fyrir frábæran dag Laufey. 🙂

Við mæðgur drifum okkur svo eftir kvöldmatinn, sem var með mexíkósku ívafi, til ættarlaukanna á Hraunbrautinni. Við færðum mömmu gsm síma sem við höfðum keypt fyrir hana. Eftir að hafa kennt henni grunnatriðin við að hringja, svara og opna lyklaborðið og auðvitað kjafta smávegis, héldum við heim á leið. Á leiðinni lentum við í svo mikilli hellidembu að þurrkurnar höfðu ekki undan og á endanum datt annað þurrkublaðið af. Við keyrðum í hálfgerði blindni inn í næstu hliðargötu, vorum á Miklubrautinni sem er ekki sérlega góður staður til að vera að keyra hálfblindur. Þar lögðum við í fyrsta hentuga stæði og hlógum svo bara að öllu saman meðan regnið bulldi á bílþakinu. Ekki gátum við farið út til að laga þurrkuna því að það hefði þýtt eitt „að verða rennblaut“ rigningin var þvílík að það var eins og standa í sturtu. Gott að hafa góðan húmor og hlægja bara að þessu öllu saman. Við áttum reyndar eftir að hlæga aðeins meira, því að þurrkan datt einum þrisvar eða fjórum sinnum af á ferð okkar um Reykjavík. Enn nú er minn tími brátt að koma, eins og konan sagði forðum og best að fara að haska sér í svefn, kannski maður lesi eina blaðsíðu eða tvær. Heyrumst og sjáumst. 😉

Helgin liðin

Jæja nú er helgin liðin og ég hálfnuð með sumarfríið. Þetta var bara góð helgi eins og alltaf, eru helgar ekki þannig, jákvæðnin að drepa mann núna enda sumarfrí í gangi. Ég er að lesa bókina „Leyndarmálið“ og er bara nokkuð jákvæð eftir að hafa lesið það sem ég er búin með. Ég held að það sé bara mikið til í þessu með lögmál aðdráttaraflsins, þ.e. að ef þú ert jákvæður þá dregur þú að þér jákvæða hluti. Hvað sem því líður þá áttum við yndislegan dag í dag, við fórum nefnilega í skírnarveislu hjá lítilli frænku Þorvaldar og barnanna minna. Hún var skírð nafninu Guðrún Filippía í höfuðið á ömmum sínum. Það var gaman að fá að taka þátt í þessum degi með fjölskyldunni á Sogaveginum og hitta skyldfólkið. Til hamingju Gísli, Hanna og Keli. 😉
Lífið hefur gengið sinn vanagang um helgina, alltaf sama rútínan, fara og versla inn og svona. Á laugardaginn keyptum við okkur nýja þvottavél, auðvitað í Elkó, Electrolux geðveikt góða og er ég búin að vera þvo og þvo, rosalega óhreint tau á heimilinu. Gamla góða AEG þvottavélinn okkar fór í Skipholtið og á vonandi eftir að endast þeim skötuhjúum vel. Jæja ég er að spá í að hætta þessu í bili og fara að lesa eða eitthvað skemmtilegt. 😉

Endurnýtingardagurinn mikli

Jæja ég fór í Kópavoginn í morgun og við mæðgur bjuggum til pils úr tvennum gallabuxum sem frúin var hætt að nota. Það var nú kannski bara mamma sem átti heiðurinn af þessum breytingum, ég overlokkaði og straujaði, góð í því… Alltaf jafn gaman að sauma en ég geri alltof lítið af því upp á síðkastið, ég skil ekki af hverju. Það var notalegt að sitja með mömmu og pabba og tala um ýmislegt. Við ræddum m.a. um ferð sem við ætlum saman í febrúar en þá á gamli stórafmæli og þau gömlu brúðkaupsafmæli, við látum á liggja á milli hluta um hve stórt það er. En annars við ætlum að sigla á Karíbahafinu, þið vitið að ég er skemmtiferðaskipafíkill og er að reyna að fá fleiri með mér í þetta og er búin að takast að smita þau gömlu. Ætlunin er að sigla í kringum Kúbu með Freedom of the Seas, sem er að ég held 160 000 tonn, engin bátur heldur alvöru skip (smá grín úr síðustu ferð). Það er kominn mikill hugur í okkur út af þessari ferð og erum aðeins farinn að skipuleggja hvað við gerum meira. Kemur í ljós síðar. 😉
Eftir að ég kom heim hafði ég það bara náðugt, nennti ekki að fara að taka til en ætlunin er að klára að taka til í skápunum í sumarfríinu, hef tvær vikur til stefnu. Kannski verður rigning á morgun og þá get ég bara dembt mér í þetta verkefni, hver veit!