Helgin liðin

Nú er helgin u.þ.b. að líða og ég sit hér og tala við Þorvald í gegnum Skypið, hann í Lilleström og ég á Miðbrautinni, samt er eins og hann siti hér við hliðina á mér. Eina er að hann er ekki með myndavélina á tölvunni svo ég sé hann ekki þessa stundina 🙁 En hann kemur aftur á fimmtudaginn. Það er 15° hiti núna klukkan 23.30 í Noregi en það var um 20° hiti í dag þegar þeir lentu félagarnir úr Elkó. Ég keyrði þá í Keflavíkina í dag, alltaf jafn gaman að koma í Keflavík… kvöldin þar þau eru engu lík… Í dag var fullt af fólki á rölti í miðbænum, verið að enda ljósanóttina og voða gaman að sjá þetta. Við mæðgur fórum í smá leiðangur í gær, guð hvað maður getur verið þreyttur á að fara í svona leiðangra, Ikea og fleira. Um kvöldið grilluðum við svo læri og allir borðuðu heima, svona fjölskylduboð voða gaman 😉 En núna er ég að spá í hætta þessu og hætta líka að tjatta við Þorvald í Norge. Við erum búin að vera að tala meðan ég pikka þetta inn. God nat 🙂

Gráu hárin

Ég var að koma frá henni Siddý í Permu en hún hefur það hlutverk að laga heysátuna á höfðinu á mér og er ég extra flott þessa stundina. Í dag voru strípurnar eiginlega klipptar burtu og viti menn þá komu gráu hárin í ljós, svei mér ef þeim fjölgar ekki jafnt og þétt. En svona er þetta nú maður eldist með hverjum deginum en þó er maður alltaf bara 29 eins og mamma gamla. Í gær fór ég svo í nudd til Stínu, hún tók vel á mér en það var langt síðan við hittumst síðast. Það var eins og hefði keyrt yfir mig trukkur í gærkveldi en dagurinn í dag er allur annar. Nú er kominn fimmtudagur og enn að koma helgi, Þorvaldur skreppur aðeins til Noregs á sunnudaginn og kemur aftur eftir nákvæmlega viku. Hann ætlar að fara að fræðast um heimilistæki og eitthvað annað skemmtilegt, syngja Elkjöp sönginn og svona. Við hin á heimilinu látum okkur leiðast á meðan… not, það verður bara fjör hjá okkur, vinna, skóli o.s.frv. Ég hef haldið áfram jafnt og þétt að lesa bókina hans Guðjóns og bregst hún ekki 🙂 mæli með henni. Enn nú ætla ég hins vegar að leggjast fyrir framan tv-ið og horfa á alla vega tvo uppáhalds þætti eða jafnvel þrjá. Svo næ ég nokkrum síðum í bókinni fyrir háttinn.

Mín bara dugleg

Ég ákvað bara að vera dugleg núna og færa inn færslu. Hann Þorvaldur minn benti mér á að það væri nú kannski komið svona ákveðið ferli í færslunum, fyrst var einn dagur á milli og svo tveir eða eitthvað álíka og svo fjölgaði dögunum á milli færslna. En það sem ég þarf alltaf að afsanna hlutina, færi ég inn færslu núna. Ég útskýrði þetta nú bara með því að segja að það gerðist nú ekki alltaf eitthvað sérstaklega markvert í mínu lífi hvern dag en það er nú bara rakið bull. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast en kannski maður skrifi bara ekki um hvað sem er. En þannig er það nú í dag að ég fór í tvö stórskemmtileg fimmtugs afmæli á þremur dögum, annað hjá Önnu Leu í Keflavíkinni og svo til hennar Jóhönnu á Reynimelnum. Í báðum afmælunum var mikið sungið og skrafað en það er einmitt það sem mér finnst svo skemmtilegt, þ.e. að syngja og skrafa. Svo hef ég bara verið dugleg í hreyfingunni síðustu daga, fór og synti í Neslauginni, það er svo gott að synda. Á morgun ætla ég svo að hitta hana Stínu nuddara, það er svo langt síðan ég hef farið til hennar í nudd svo ég hlakka mikið til eða þannig. Svo ætlar hún Siddý að sæna svolítið hárlubbann á fimmtudaginn, bara dekur þessa dagana 😉 Svona er þetta nú stundum allt safnast á sömu vikuna. Ég fékk senda bók í póstinum í dag, sem er nú ekki frásögu færandi en ég pantaði nýju bókina eftir Guðjón Bergmann sem heitir „Þú ert það sem þú hugsar“. Ég held mikið upp á Guðjón eftir að hafa verið hjá honum í jóga í nokkur ár. Les af og til bloggið hans og svo fór ég á fyrirlestur með henni Steinu vinkonu minni í fyrra um fyrirgefninguna, mæli með honum. Ég hlakka mikið til að byrja að lesa bókina, læt vita hvernig mér finnst hún. Er að hugsa mu að hætta núna og fara að lesa 🙂