Eftir að hafa gengið frá okkkur og pakkað í bílinn skiluðum við af okkur lyklum og héldum niður í Franska hverfið í New Orleans á vit ævintýranna. Við fundum bílastæðið við Peter Street og keyptum okkur 5 tíma og gengum síðan áfram að Decatur Street þar sem City Segway er til húsa. Við komumst fljótlega að því að við vorum þau einu sem ætluðu í þennan 3 tíma túr og var þetta því einka túr okkar um New Orleans. Við gátum því valið hvað við gerðum en við settum það í hendurnar á Jason gætinum okkar 😉 Eftir að hafa skrifað undir að við færum af fúsum og frjálsum vilja og myndum ekki súa þau ef eitthvað kæmi upp á og eftir að hafa horft á skyldumyndband héldum við af stað. Þetta var örugglega í sjöunda sinn sem sáum þetta myndband því við teljum að þetta sé tíunda segway ferðin. Þessi túr var í alla staði mjög skemmtilegur, við krúsuðum um New Orleans og gengum þess á milli, fórum og skoðuðum merkilega staði eins og garð sem gerður var til minningar um Louis Armstrong svo eitthvað sé nefnt. Þegar við höfðum lokið ferðinni gengum við að Bourbon Street nokkrar húsalengdir og svo niður að Mississippi áður en við fórum að bílastæðinu og keyrðum af stað til Memphis. Áður fórum við á Bubba Gumb og fengum okkur í svanginn. New Orleans stóð vel undir væntingum og er staður sem er vel virði að skoða 🙂
En ævintýrið hélt áfram, við keyrðum eftir I-10 til Baton Rouge og svo áfram að Mississippi. Rigningin hafði ekki haft áhrif á okkur þennan daginn en fór fljótlega að gera það. Það byrjaði fljótlega að rigna og við fengum aðvaranir um flóð stöðugt á símann. Við urðum ekki mikið vör við flóð en allt var mjög blautt og við sáum að engin voru full af vatni. Göturnar voru mjög blautar og sum staðar safnaðist í polla. Fljótlega sáum við að ferðin gengi frekar hægt eftir sveitavegunum sökum skyggnis og bleytu svo við tókum þá ákvörðun að fara inn á Interstate við Jackson. Það tók um klukkutíma að komast þangað og við enduðum á hóteli við Jackson þar sem við eyddum nóttinni á Quality Inn. Á morgun er svo ferðinni heitið til Memphis þar sem við ætlum að skoða eitthvað skemmtilegt.