Föstudagur í St. Maarten / Martin

Í morgun um kl. 8 héldum við í leikhúsið þar sem að safnast var saman fyrir skoðunarferð dagsins. Við ætluðum að fara í fiðrildabúgarð og fleira. Við ókum í rútu yfir á franska hluta eyjunnar en hún skiptist í franskt og hollenskt yfirráðasvæði. Það var mjög gaman að skoða fiðrildin sem voru alveg frá lirfum í púpum yfir í alla vega lit fiðrildi. Gróa Mjöll fékk eitt stórt á höfuðið og það sat þar lengi og var svo fært aftan á bakið á henni og leit þá út eins og vængir, sjá myndir. Eftir að hafa eytt tíma þarna var förinni heitið áfram til Margot sem er stærsti bær franska hlutans og fengum við tíma til að sinna smá viðskiptum. Etir það héldum við aftur yfir í hollenska hlutann nánar til tekið í höfuðstaðinn Philipsburg þar sem skipið okkar Serenade of the Seas lá við bryggju. Við kíktum aðeins í búðir og fengum hlekkinn okkar í armbandið sem við erum búnar að vera safna á í Diamonds International. Við tókum síðan Water Taxi yfir á bryggjuna þar sem skipið var. Haldið var upp á Windjammer að fá sér í gogginn eftir 5 tíma í landi og voru allir mjög svangir. Nú er bara afslöppunartími og tími til að setja inn færslu og myndir áður en kvöldmatur og skemmtun í leikhúsinu hefjast. Nú eru tveir heilir dagar um borð í skipinu áður en við förum endanlega í land. Sá tími verður notaður til að fara í ræktina, hvíla sig og njóta sólarinnar 😉

Halda áfram að lesa

Þrír dagar í eyjastoppi ;)

Í dag er fjórði dagurinn okkar i eyjastoppi og á morgun er síðasti stoppustaðurinn fyrir siglingu til Fort Lauderdale og komum við í land á mánudagsmorguninn. En síðustu dagar hafa verið æðislegir og allir skemmt sér vel þó sérstaklega Gróa Mjöll, hún heillar alla upp úr skónum. Hún hefur farið í krakkaklúbbinn og eytt þar nokkrum tímum í senn, hún biður um að fara sem segir kannski að hún sé leið á okkur hahaha…… nei kannski er það bara sólin og hitinn 😉 Daginn eftir Tortóla sigldum við til St. Kitts og þar fórum við í höfrungaklapp og knús með meiru. Við fórum út á litla bryggju og það kom höfrungur sem kallaður Dante að okkur og við fengum að knúsa og klappa og gera háa fimmu. Hann gerði líka alls kyns kúnstir fyrir okkur áður en við skoluðum af okkur og héldum heim í skip. Þegar þangað var komið kíktum við á alls kyns sölubása og sinntum smá viðskiptum eins og við höfum reyndar gert í öllum höfnum. Þetta var afmælisdagurinn hans Þorvaldar svo við vorum fínt klædd í kvöldmatnum og fengum dýrindis máltíð. Enginn kaka eða söngur en hann kom hins vegar næsta kvöld en gamli hélt hann væri sloppinn 😉 Þetta var út af smá misskilningi en var bara skemmtilegt því að herbergisþjónninn hafði líka skreytt herbergið með handklæðaskrauti og skrifað kort. En áfram með ferðasöguna, í gær vorum við í Dominica og þar fórum við í skoðunarferð sem endaði á æðislegri strönd sem við eyddum tíma í við alls kyns skemmtilegheit. Syntum í sjónum og lékum í sandinum þar til allir urðu rauðir og sællegir. Við enduðum svo ferðina í landi með því að ég og Gróa Mjöll fórum í hárgreiðslu, fengum fullt af fínum fléttum og perlum 🙂 Í dag vorum við svo á Antigua en við Þorvaldur vorum hér síðast fyrir 10 árum. Þar fórum við í skoðunarferð um eyjuna og mikið hafði breyst á þessum 10 árum, bæði hefur eyjan þróast mikið og það sem verra er að allir eru orðnir ágengari í að selja alls kyns þjónustu. Við eyddum meiri hluta tímans sem við höfðum í landi í að kanna Antigua. Gróa Mjöll kíkti á krakkaklúbbinn sinn eftir hádegismatinn og var með málað fiðrildi í andlitinu þegar hún var sótt. Gummi fór í land í könnunarferð en við hin hvíldum lúin bein. Í kvöld er svo kvöldverður hjá vinum okkar á 5. hæðinni og svo er sýning í miðjunni sem við ætlum að kíkja á. Gróa Mjöll hefur farið í miðjuna eftir kvöldmat og dansað við undirleik gítarleikara en hún er vel þekkt meðal eldra fólksins sem kemur og hlustar og horfir á ungviðið dansa en það hefur ein lítil vinkona dansað með henni. Á morgun er það síðasta stoppið St. Maarten en þar ætlum við að fara að kíkja á fiðrildi sem verður vonandi gaman. Þangað til næst endilega njótið 🙂

Halda áfram að lesa