Fantastic Caverns

Nærri Springfield í Missouri eru þessir fallegu hellar staðsettir. Við fórum með frábærri konu í 55 mínútna ferð í gegnum þá. Myndirnar tala sínu máli en þetta er aðeins smá brot af þeim myndum sem við tókum. Ég mæli eindregið með þessari ferð sem var alveg stórkostleg. Þess má geta að það var hundur sem upphaflega fann hellana en það er stytta honum til heiðurs og er hér á síðustu myndinni.

Frá Denver Colorado til Parsons Kansas

Þessi dagur var stóri keyrsludagur ferðarinnar en við vorum á ferðinni allan daginn fram á kvöld. Við komum við í Walmart til að nesta okkur upp og kíkja á alls konar. Það má segja að við höfum keyrt beinan og breiðan veg allan tímann og sáum nánast bara sléttur og svo alveg fullt af vindmyllum sem trufluðu okkur bara ekki neitt. Við komum seint og um síðir á hótel til að hvíla lúin bein og safna kröftum fyrir morgundaginn.

Páskaferðin 2022

Allt gekk eins og í sögu, ekkert vesen til að byrja með. Flugferðin var þægileg, við fengum þrjú sæti og gátum því breytt úr okkur. Þessir klukkutímar voru fljótir að líða, sólin skein inn um gluggana og útsýnið var ægifagurt á milli. Röðin var stutt í innritun á landamærunum og gekk það eins og í sögu, þó gaurinn sem við lentum á var frekar fúll. Það tók smá stund að endurheimta farangurinn og þegar því var lokið var bara að sækja bílaleigubílinn. Það gekk ekki eins vel og hefur verið undanfarið. Við mættum á bílaleiguna og þar var okkur tjáð að við gætum ekki leigt bílinn sem við vorum búin að leiga því að við ætluðum út út Colorado ríki. Bílaleigan leyfði ekki þvílíkt og sem betur fer lentum við á starfsmanni með sterka þjónustulund og reddaði hann okkur bíl á annarri leigu. Við þurftum því að taka rútuna aftur upp á flugvöll til að taka aðra rútu á nýju bílaleiguna. Eftir heilmikla töf erum við komin á hótelið á ágætis Toyota Rav4. Nú er bara að reyna sofna en við höfum eiginlega ekkert sofið í rúma 20 tíma 😉