Í lok verslunarmannahelgar

Þessi mánudagur leið eins og hver annar, þ.e. frekar hratt. Við tókum daginn frekar rólega, ég sótti Eddu í Skipholtið um 10.30 og eftir það fengum við okkur léttan hádegis- morgunverð. Við horfðum á Simpsons, Þorvaldur fór í Kópavoginn í múrverkið, Kristján bakaði pönsur og ég horfði á það sem tekið var upp fyrir mig í gær. Eftir að Þorvaldur kom heim hjóluðum við 20 km hringinn í góðu veðri, ég er að verða eins og veðurfréttakonan með þessum daglegu pistlum. Kristján var að þvo bíla þegar heim var komið og ég aðstoðaði hann pínulítið. Svo elduðum við dýrindis nautasteik, sem við gerðum góð skil þ.e. ég, Þorvaldur og Kristján, því Gummi hafði sótt Eddu meðan við vorum að hjóla. Eftir að hafa gengið frá var bara glápt á sjónvarp og nú bíð ég eftir „Út og suður“ á stöð 1, því að það á að ræða við hana Önnu Richards sem kenndi mér fyrir norðan á fyrsta árinu. Anna er mjög skemmtilegur persónuleiki sem fékk mann til að sleppa fram af sér beislinu í dans og hreyfingu. Þetta verður vonandi hin besti þáttur. Svo er bara vinnudagur á morgun, sumarfríið búið í bili en það er bara tæpur mánuður í Ameríkuferðina okkar með siglingu og sól vonandi. 😉

Góður sunnudagur

Við hjónin vorum að koma úr einum af okkar vinsælu hjólatúrum, í kvöld fórum við 15 km hringinn á 47 mínútum sem þýðir 19 km meðalhraði. Nokkuð gott, pínulítill mótvindur sem er varla hægt að tala um, veðrið mjög gott og umhverfið fallegt, sólin alveg að setjast. Dagurinn í dag er búin að vera bara góður. Þorvaldur fór á Hraunbrautina að múra, ég kláraði bókina „Leyndarmálið“, fékk að uppgötva hvert það er en það er aftur á móti spurning um hvort ég geti tileinkað mér það. Eftir að hafa lesið fór ég einn stóran hring á Nesinu, ég gekk mjög rösklega og hljóp smávegis. Ég er að tékka á því hvort ég geti tileinkað mér hlaupastílinn sem hann Smári Jósafatsson talaði um í Kastljósinu á fimmtudagskvöldið. Mér gekk bara vel í því að reyna við þetta og ég er ekki frá því að þetta sé auðveldara svona. Svo er bara að auka þolið með því að hlaupa alltaf meira og meira. Þegar ég kom heim og var búin að teygja vel, kom Þorvaldur heim af Hraunbrautinni og við fórum að horfa á leikinn Man. Utd. gegn Chelsea. Ég sofnaði reyndar í seinni hálfleik en það kom ekki að sök því að United unnu leikinn. Ég veit ekki hvort það er góðs viti, því að hér er talað um að þeir sem vinni þennan bikar vinni ekki Englandsmeistaratitilinn 🙁 Við vorum svo boðin í kvöldmat á Hraunbrautina í svínasteik, hún klikkar aldrei hjá pabba, við gerðum henni góð skil eiginlega alltof góð skil og svo fengum við ís og ber í eftirrétt. Því var meiri ástæða til að fara út að hjóla þegar heim var komið og ekki spillti veðrið fyrir 😉

Færsla dagsins í dag

Við sváfum aðeins lengur í dag, hvað maður er enn í fríi 🙂 Við skoðuðum svona síður fyrir blog, nánar tiltekið 113 flokka með ég veit ekki hvað mörgum formum og völdum nokkrar sem hentuðu. Því næst kláruðum við hjónin ýmsa hluti sem þurfti að klára núna um helgina og héldum svo á Hraunbrautina, því að Þorvaldur ætlaði að halda áfram að múra gluggakisturnar sem hann byrjaði á í gær. Ég kjaftaði við mömmu og pabba, klippti pabba en við vorum bara úti við því að veðrið var hið dásamlegasta, sólskin með köflum og heitt. Eftir að heim var komið höfðum við það náðugt, Þorvaldur fór í tölvuna að vinna eitthvað (hann er alltaf að vinna eitthvað þrátt fyrir að hann sé í fríi) og ég fór að hlusta á Putumayokids diskana mína sem ég pantaði á amazon og fékk í síðustu viku eða svo. Þetta eru skemmtilegir diskar með latin, afrískri og raggaetónlist, tónlist úr Karíbahafinu svo eitthvað sé nefnt, allt tónlist sem hægt er að nota í kennslu með börnum. Ég lét því hugann reika og sá fyrir mér hvernig hægt væri að fá börnin til að hreyfa sig eftir þessum skemmtilega ritma sem einkennir þessa tónlist. Það er ótrúlegt hve mikið af þessari tónlist kemur frá Karíbahafinu og Mexíkóflóanum, því með diskunum kemur helling af fróðleik um tónlistina. Ég mæli eindregið með Putumayo, þeir gefa út tónlist sem að ekki sést í öllum geisladiskabúðum. Edda forlag er með tónlistarklúbb og fær maður einn disk í mánuði eða ekki ef maður kýs að afpanta. Þannig kynntist ég þessum diskum og hef svo pantað fleiri gegnum amazon, þetta á ekki að virka sem auglýsing ég held bara mikið upp á þessa diska.
Þorvaldur eldaði svo dýrindis svínarif, svona kínversk í hoisin sósu nammi namm… 😉 Kristján kenndi mér svo á þetta nýja netkerfi og hér hef ég setið og skrifað færslur í gríð og erg…. 🙂