Sama gamla rútínan

Jæja nú er maður bara komin í sömu gömlu rútínuna aftur og er snöggur af því. Ég hef reyndar verið að berjast við einhverja sjóriðu, heimurinn tekur sig til allt í einu og snýst í kringum mig og þess á milli finnst mér eins og ég sé að stíga ölduna. Getur verið frekar óþægilegt en vonandi rjátlast nú þetta af mér fljótlega. Ég fór nánast strax eftir lendingu í Keflavík í vinnuna og mikið var gaman að hitta börnin og samstarfsemnnina. Dagurinn í dag var svolítið erfiður, konan eitthvað dösuð og með sjóriðuna. Svo skrapp ég heim eftir gleraugunum mínum í morgun, því þeim gleymdi ég algjörlega í morgunsárið, og á leiðinni til baka í leikskólann fór bíllinn minn að ganga eitthvað sérkennilega. Ég hringdi í Þorvald sem aftur hringdi í Bjössa frænda, bifvélavirkjann í fjölskyldunni, sem kom og kíkti á gripinn og ætlar að skoða hann fyrir mig á mánudaginn. Vonandi er þetta nú ekki eitthvað meiriháttar, því að konan er orðin allt of góður vön og á erfitt með að vera án bleiku drossíunnar. Í kvöld er menningarferð 2. deildar leikskólakennarafélagsins, það er alltaf mjög skemmtilegur viðburður. Í kvöld ætlum við að sækja Álftanesið heim og borða svo í Kópavogi og skemmta okkur eitthvað fram eftir kvöldi. Fyrir þá sem ekki vita er 2. deild fyrir þá leikskólakennara sem vinna í Kraganum, þ.e. Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Álftannes og Hafnarfjörður. Enn núna þarf ég að fara að taka mig til því að við eigum að mæta út í leikskóla eftir tæpan klukkutíma. Þar til næst eigið þið góða helgi 😉

Á morgun…

Nú er barasta að koma að því, því á morgun fljúgum við á vit ævintýranna 🙂 Næstum búin að pakka, bara tannburstar og svoleiðis eftir. Ég hef örugglega pakkað allt of miklu að vanda en það á eftir að koma í ljós. Ég er með veðrið í Orlando á skjánum hjá mér og núna í þessum töluðu orðum er klukkan 18:47 að staðartíma og 29° hiti og sól. Hefur verið að rigna svolítið að undanförnu en við látum það ekki á okkur fá. Næsta færsla verður vonandi á morgun eða þá hinn og þá frá Orlando, kannski færi ég inn í Keflavík kemur í ljós. En þar til næst…. guten nacht 😉

Ekki á morgun heldur hinn

Eins og dóttir mín benti mér á í ummælunum með síðustu færslu hef ég ekki staðið mig í að skrifa færslur. Síðan 11. september þá hefur nú eitt og annað drifið á daga mína. Fyrir utan vinnu og allt sem því tengist, þá varð hún Edda mín 21 og við fórum á afmælisdaginn hennar í dekur til hennar Jóhönnu 😉 Um kvöldið komu svo mamma og pabbi í heimsókn og færðu okkur hjónum blóm í tilefni af silfurbrúðkaupinu, ohh… mér finnst ég bara verða gömul á að skrifa þetta en svona er nú lífið. Edda fékk líka blóm og fallega mynd. Í gær var Edda svo með „eighties“ partý fyrir vinkonur sínar, hún skreytti Skipholtið með myndum frá þessum tíma og var með tónlist þessa tímabils. Svo voru þær klæddar samkvæmt tímabilinu, grifflur, legghlífar, sítt að aftan og herðapúðar, hefði verið gaman að fá að taka þátt en þetta var ekki mitt partý 🙁 Ég fékk þó að hjálpa smá við undirbúngingin, gerði kartöflurétt og svona. En nú eru s.s. tveir dagar í síðbúnu brúðkaupsferðina eða þannig og tími til farinn að taka fram töskurnar og pakka einhverju niður. Maður veit ekki alveg hvað maður á að taka með sér, yfirleitt tekur maður allt of mikið. Við höfum verið að velta fyrir okkur hvort við eigum að nenna að taka viðhafnarklæðnað fyrir eina formlega kvöldmatinn á skipinu eða panta okkur bara á steikhúsinu um borð. Við höfum ekki prófað það svo að það verður örugglega ofan á. Við fljúgum s.s. út á þriðjudaginn og verðum í Orlando fram á föstudag er við höldum til Canaveral höfða og tökum þar „Sovereign of the Seas“ sem má þýða „Einvaldur hafsins“. Með honum siglum við á vit ævintýranna á Bahamaeyjum, nánar tiltekið til Nassau og Coco Cay sem er einkaeyja skipafélagsins. Eftir að hafa farið í þessa ævintýraferð verðum við svo í Orlando fram á miðvikudag. Ekki hefur verið ákveðið hvað við gerum í Orlando en það er ekki hægt að láta sér leiðast þar, þannig að ég hef littlar áhyggjur að við gerum það. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með halda bara áfram að lesa þessa vefdagbók, því ég ætla að skrifa færslu á hverjum degi, vonandi tekst sú áætlun 😉 En nú aftur til Íslands, því í kvöld ætla foreldrar mínir að koma til okkar og borða lambalæri. Það mætti halda að við kynnum ekki að elda annað, því við bjóðum þeim regluga í læri en það er bara svo gott „íslenska lambakjötið“ eins og Guðni mundi segja það. Until next time, veriði blessuð…