Er það ekki bara skemmtilegt þegar maður fær tækifæri til að gera eitthvað annað en maður gerir dags daglega? Það er nefnilega það sem ég hef verið að gera síðustu daga eitthvað sem ég geri ekki á hverjum degi. Ég var á þriggja daga kennaranámskeiði hjá Kramhúsinu og mikið skelfingar ósköp var gaman 🙂 Við vorum ja að minnsta kosti 30 manns sem dönsuðum, spunnum, sungum, teiknuðum, notuðum eigin líkama sem hljóðfæri svo að eitthvað sé nefnt. Það sem var hægt að láta okkur gera var alveg ótrúlegt, mjög góður og opin hópur. Svo er bara að yfirfæra þetta í vinnu með börnunum, sem verður held ég frekar auðvelt, því börn eru jú svo opin fyrir öllu. En eitt er víst að ég fer aftur að ári, þarf að sækja um leyfi hjá Soffíu strax á mánudaginn 😉 En nóg um það bíllinn minn eða okkar Þorvaldar sem skemmdur var um síðustu helgi er kominn í lag. Það var skipt um rúðu á þriðjudaginn svo að allt er að komast svona í eðlilegt horf. Á mánudaginn koma svo Edda og Gummi heim frá Mexico, blogsíðan þeirra er mexico.svekk.net, hvet alla til að kíkja og gefa þeim smá komment. Mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim og fullt af flottum myndum. Ég talaði við Eddu í gegnum netsímann áðan og við spjölluðum vel á annan klukkutíma. Hún er öll bitin á fótunum, líkist mömmu í þeim efnum, sæt og safarík eða þannig. Nei þetta er nú ekkert grín að vera svona bitin, hún er meira segja með bit undir iljunum á… ég held að það hljóti að vera ógeðslega vont 🙁 Það verður gott að fá þau skötuhjú aftur heim, svo við getum farið að fara í ræktina saman mæðgur… joke, nei ég hef saknað að hafa hana ekki með mér en ég verð að notast við eiginmanninn nú um helgina. Núna um helgina verður svo tengdó hjá okkur og ætlum við að kíkja á hjúin á Hraunbrautinni en pabbi hefur veriðað reisa smáhýsi fyrir rafskutluna þeirra. Seinni partinn á morgun förum við svo í útskriftaveislu til Hönnu og Gísla en þau eru að útskrifast frá KHÍ og HR. Jæja ég held ég hætti þessu nú í bili, þarf endilega að fara að standa mig betur í að setja inn myndir……. Vel á minnst 3 vikur í NY 😉 Ég var að uppgötva þegar ég sá dagsetninguna á færslunni að hún Ragnheiður vinkona mín er 45 ára í dag, til hamingju Ragnheiður!!!
Greinasafn fyrir flokkinn: Daglegt líf
Og það er bara komin júní
Það er bara komin júní 2008, tímin líður alveg ógeðslega hratt þessa dagana 🙁 Fer að styttast í stóra daginn þegar sú gamla verður 45 ára en dagurinn er nú merkilegri finnst mér út af dagsetningunni. Sem sagt 06 07 08, ég verð 45 06 07 08 sem mætti leggjast út þannig 45678, er þetta barasta ekki stórmerkilegt. Þess má geta að við hjónin verðum ekki á landinu þennan stórkostlega dag, við ætlum að skreppa í Bússlýðveldið eins og sonur minn kallar það á góðum stundum. Við ætlum að vera í Nýju Jórvík 6. júlí en við verðum líka á þjóðhátíðardag þarlendra þann 4. júlí. Þess má einnig geta þó að ég sé kannski ekki alveg eins stolt yfir því, að við George Bush yngri eigum einmitt sama afmælisdag en ekki veit ég hvað karlgreyjið verður gamall, skiptir minna máli í mínum huga 😉 En að öðru við gellurnar af leikskólum Seltjarnarness fórum í gær í alveg rosalega skemmtilega ferð út í Viðey. Þar skoðuðum við m.a. friðasúluna hennar Yoko, eða friðarsúlustandinn ef það má kalla þetta mannvirki svo en það var afskaplega gaman að berja það augum. Hvítur marmari sem áletrað er á á ýmsum tungumálum „give peace a chance“, ég hélt hreinlega að þetta væri ekki svona stórt en það reyndist hins vegar vera svo. Eftir að hafa skoðað það merkilegasta í Viðey borðuðum við alveg ofboðslega góðan mat, humarsúpu, lambakjöt og svo súkkulaðiköku í eftirrétt. Síðan var haldið heim á leið með viðkomu hjá Hrafnhildi á Kirkjubraut 9 en ekki Dúfnahólum 10, hahaha en ég kom heim rétt fyrir miðnætti 🙂 Í morgun fórum við hjónin svo í ræktina að vanda og ætlaði ég svo að sækja eðaldrossíuna okkar í Sólbrekku en hann hafði staðið þar um nóttina. Þegar ég nálgaðist svo bílinn sá ég að ekki var allt með felldu og þegar ég kom nær sá ég að rúðan bílstjóramegin var mölbrotinn 🙁 Ég fór og sótti Þorvald í ræktina og við drifum okkur og hringdum á lögguna sem kom og tók skýrslu. Við komumst að því að þetta hafði bara verið skemmdarverk, því að það lá steinn í framsætinu farþegamegin og ekkert hafði verið tekið úr bílnum. Ég barasta skil ekki alveg svona virðingarleysi fyrir eigum annarra í þessu þjóðfélagi okkar nú til dags, hvað er eiginlega í gangi …. Eftir að hafa ryksugað glerbrot sem að var by the way um allan bílinn, fórum við að koma hinni eðaldrossíu heimilisins í gang en hún hefur staðið óhreyfð fyrir utan Miðbrautina í svolítin tíma. Var hún alveg vita rafmagnslaus og þurftum við á endanum að draga hana um hálft Nesið þar til hún hrökk í gang. Við fórum svo og fjárfestum í nýjum geymi en svona til að nota stað og stund þá er drossían til sölu 😉 Þetta er lítið ekinn en gamall og virðulegur VW Polo afskaplega gott og vel við haldið eintak… Áhugasamir hafið bara samband við okkur. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr 🙂
Eins og hristur kokteill
Alltof langt síðan ég skrifaði síðast, Edda og Gummi farin til Mexico 😉 blogsíðan þeirra mexico.svekk.net. Síðan um helgi er búið að vera mikið að gera hjá okkur hjónunum. Elkó var að opna nýja búð í dag og undanfarið hefur Þorvaldur komið heim til að sofa og svona og mín aðeins búin að vera með puttana í að raða upp og taka til síðan um helgi. Svo í gær í vinnunni í Sólbrekku eitthvað í slappari laginu, hélt að það væri kannski bara út af meiri vinnu en vanalega. Þegar ég kom heim ákvað ég að mæla mig í gamni og mín bara með hita 🙁 Var heima í dag ógeðslega slöpp með hausverk og hálsbólgu að reyna að góna á sjónvarpið þegar allt fer að hristast og skjálfa. Næ að standa upp úr rúminu og bregða mér í hurðakarminn en ég komst ekki lengra. Allt dansaði í kringum mig en ljós og hlutir sem héngu í loftinu á fullri ferð. Komst fram og kveikti á útvarpinu og hringdi í Þorvald í frekar mikilli geðshræringu, jú hann hafði fundið fyrir þessu og sagði að ljósin í Elkó hefðu aðeins dansað og væru að því enn. Ég var svo smá stund að jafna mig á ósköpunum og sat það sem eftir var dags og fylgdist með fréttum í sjónvarpinu. Kristján kom svo heim og sagði að Orkuveituhúsið hefði dansað helling, þannig að okkur líður eins og hristum kokteil. En eins og einhver kona á Selfossi sagði við erum heil og það er það sem máli skiptir er ekki svo…. 😉