Yndislegur dagur að kveldi kominn. Var að koma úr 10 km hjólatúr með Björgu, hún var reyndar á línuskautum en ég á hjóli. Við fórum eftir Ægissíðunni inn að kirkjugarði settumst á bekk þar og nutum veðurblíðunnar. Edda og ég gengum stóra Neshringinn fyrr í dag í sól og blíðu. Maður er bara komin með góða brúnku og skrítin för á bakið eftir hina ýmsu hlíraboli, svona eins og tígrísdýr. Hver segir að það þurfi að fara til sólarlanda til að fá brúnku á skrokkinn! Á morgun á svo að fara í ræktina og njóta svo góða veðursins (maður reiknar með því að það verði áfram sól og sumar). 😉
Author: Gróa Kristjánsdóttir
Gott að vera í sumarfríi
Já það er sko gott að vera í sumarfríi. Í morgun dúllaði ég mér bara og fór svo í sund og synti mínar ferðir að vanda og svo í heita pottinn. Hitinn fór í 22° meðan ég var í lauginni. Ég hitti fullt af fólki sem ég spjallaði við. Þegar heim var komið hengdi ég upp tau, tékkaði á pósti og setti smá orðsendingu inn. Á eftir fer ég svo til Siddýar á Permu, hitti Eddu sem er að láta gera sig fína og svo verður frúin klippt og gerð fín en ekki hvað. 🙂
Er bara komin með lén juhu
Nú verður bara hafist handa og bloggað á fullu. Ég og mín ástkæra dóttir fórum í dag í okkar árlega rúnt um Suðurland. Við keyrðum í Hveragerði, rúntuðum um þar, kíktum á MR selið, það er greinilega verið að vinna við að gera við það, komin tími til að okkar mati. Við stoppuðum svo í Eden og versluðum smá eins og okkar er von og vísa en síðan var ekið á Selfoss. Það var 29° hiti á mælinum þegar ekið er inn á Selfoss og fundum við vel fyrir hitanum, með blásturinn á fullu. Við skoðuðum ýmislegt á Selfossi, keyptum nesti í Guðnabakarí og brunuðum á Þingvelli. Þingvellir skörtuðu sínu fegusta í sólskini og blíðu og notuðum við sénsinn að fá okkur nestið góða og röltum svo með öllum túristunum. Það voru m.a. túristar merktir skemmtiferðaskipinu sem var í höfn, Costa Classica, ég er skemmtiferðaskipafíkill þannig að ég fékk smá fiðring í magann að sjá þau spranga um Þingvelli. Nánast eins og að vera í útlöndum að heyra bara talaða „útlensku“ á þessum sögufræga stað. Við keyrðum heim glaðar og ánægðar eftir daginn og þá tók hversdagurinn við með eldamennsku og þvotti. 😉